„Að sýni úr leghálsstroku séu nú send til útlanda í greiningu finnst okkur óskiljanlegt,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. Vísar hún þar til breytinga sem verða til þess að sýni verða send úr landi til rannsóknar þrátt fyrir að til sé þekking, kunnátta og tækjabúnaður til greininga hér á landi.
Skimanir fyrir krabbameinum í brjóstum voru um áramót fluttar frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands til Landspítala. Þá verður framvegis sá háttur hafður á að leghálssýni fara úr landi til rannsóknar, en skimanir í leghálsi voru færðar frá Leitarstöðinni til heilsugæslunnar. Halla segist lítið botna í ráðstöfuninni.
„Í desember fékk Landspítali tæki til veirugreininga sem gerir greiningarnar enn skilvirkari en hingað til. Hvers vegna ekki á að nýta þann búnað skiljum við ekki. Raunar hafa orðið ýmsar tafir á greiningum. Sýni sem voru tekin á leitarstöðinni og hjá sérfræðingum á stofum í nóvember fóru til heilsgæslunnar og hafa ekki verið rannsökuð enn. Þar ræður að samningar við rannsóknarstofu í Danmörku sem annast á verkefnið eru ekki í höfn. Þó lá fyrir í október að um tvö þúsund sýni biðu nýrrar rannsóknarstofu þegar hún tæki við.“ segir Halla í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.