Bygging 1.174 íbúða hófst í Reykjavík í fyrra

Nýlegar íbúðir sem Háskólinn í Reykjavík hefur byggt við Nauthólsveg.
Nýlegar íbúðir sem Háskólinn í Reykjavík hefur byggt við Nauthólsveg. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Samtals hófst bygging 1.174 íbúða í Reykjavík í fyrra, en það er annar mestur fjöldi síðasta áratugar. Til samanburðar var hafist handa við byggingu 1.417 íbúða árið 2018, sem var metár, en öll önnur ár var fjöldinn undir 1.000 og meðaltal árin 2010-2020 er um 700 íbúðir á ári.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að í fyrra hafi bygging íbúða meðal annars hafist á Kirkjusandi, Vogabyggð, Gufunesi, Leirtjörn í Úlfarsárdal, Suður-Mjódd og Bryggjuhverfi. Talsverður hluti þeirra sé á vegum Bjargs íbúðafélags, sem byggir leiguíbúðir fyrir fólk með lægri tekjur og byggingarfélagsins Búseta.

Í ár er þegar hafin uppbygging á tveimur stórum reitum í Vesturbæ Reykjavíkur, m.a. á svokölluðum Byko-reit sem afmarkast af Hringbraut, Ánanaustum og Sólvallagötu og Héðinsreit sem afmarkast af Ánanaustum, Vesturgötu og Mýrargötu. Á Bykoreitnum munu rísa 84 íbúðir og á Héðinsreit 330 íbúðir.

Fram kemur að íbúðauppbygging muni hefjast mun víðar í borginni á þessu ári en samþykkt deiliskipulag fyrir 4.898 íbúðir liggur þegar fyrir.

graf/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert