Elísabet, Arndís, Hulda og Sumarliði verðlaunuð

Arndís Þórarinsdóttir, Eliza Reid, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson …
Arndís Þórarinsdóttir, Eliza Reid, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson og Sumarliði R. Ísleifsson á Bessastöðum fyrr í kvöld þegar Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 voru afhent. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Arndís Þórarinsdóttir, Hulda Sigrún Bjarnadóttir og Sumarliði R. Ísleifsson hlutu fyrr í kvöld Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 32. sinn úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Elísabet hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldævisöguna Aprílsólarkuldi sem JPV útgáfa gefur út, Arndís og Hulda í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Blokkin á heimsenda sem Mál og menning gefur út og Sumarliði í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár sem Sögufélag gefur út.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess fá höfundarnir verðlaunagrip sem Jón Snorri Sigurðsson, á gullsmíðaverkstæði Jens, hannaði.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verðlaunaverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Einar Örn Stefánsson, Hrund Þórsdóttir, Jóhannes Ólafsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Sú nýbreytni var tekin upp í ár að lokadómnefnd sendir frá sér umsögn um verðlaunaverkin.

Gott vald á skáldsagnaforminu

Í umsögn lokadómnefndar um Aprílsólarkulda segir að bókin fjalli á „tilfinningaríkan og ljóðrænan hátt um föðurmissi, ást, sorg og geðheilbrigði. Þar segir Elísabet afar persónulega sögu byggða á brotum úr eigin ævi. Höfundur hefur gott vald á skáldsagnaforminu og nýtir það til hins ýtrasta. Þar fær ríkt myndmál og næmni sem einkennt hefur ljóðagerð Elísabetar að njóta sín vel og blæbrigðaríkur textinn leiðir lesandann óvænta en hrífandi leið í gegnum átakanlega sögu. Skáldævisaga Elísabetar er sérlega athyglisverð viðbót í þeirri tiltölulega nýskilgreindu bókmenntategund.“

Frásagnargleðin skín í gegn

Í umsögn um Blokkina á heimsenda segir að um sé að ræða „afar athyglisverða bók þar sem unnið er skemmtilega úr mjög frumlegri hugmynd. Frásögnin er áreynslulaus og á köflum bráðfyndin þótt mikilvægi samheldni og vináttu séu meginstef. Sagan er í vissum skilningi ævintýraleg og sýna höfundar mikla hugmyndaauðgi, en þó eru aðstæðurnar ekki óhugsandi og persónurnar eru bæði aðgengilegar og breyskar. Deilt er með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda og loftslagsváin er alltumlykjandi, án þess þó að þeim boðskap sé þröngvað upp á lesendur. Frásagnargleðin skín í gegn og sagan hefur burði til að heilla lesendur á öllum aldri.“

Glæsilegt og eigulegt rit

Í umsögn um Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár segir að Sumarliða takist að „varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja [Íslands og Grænlands] á afar aðgengilegan og skýran hátt“ og á það minnt að löndin tvö í norðri hafi öldum saman verið „sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. […] Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.“

Gera bara einn hlut á dag

Í þakkarræðu sinni tileinkaði Elísabet Kristín Jökulsdóttir verðlaunin aðstandendum þeirra sem veikst hafa á geði.

„Eitt helsta ráð mitt við kvíðanum sem hefur hrjáð mig síðasta ár er að gera bara einn hlut á dag. Þess vegna geri ég ekki meira þennan daginn en að taka á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum.

Það er til sjaldgæfur sjúkdómur sem birtist þannig að sjúklingurinn veit ekki hvort hann er að dreyma eða hvort atburðirnir eru að gerast í alvörunni. Þannig líður mér núna. Þess má geta að Kolbrá systur mína dreymdi fyrir tveimur vikum Eirík Guðmundsson þar sem hann tilkynnti í útvarpi allra landsmanna: Elísabet er á leið á Bessastaði. Síðan kom að mér í draumnum að velja mér kjól, mátaði ég þá tólf kjóla en valdi að endingu þann þrettánda sem var í stíl við Önnu Kareninu.

Sem kallast á við það að næst langar mig að skrifa rússneska skáldsögu. Það byrjaði þannig að ég lagðist upp í rúmið eitt kvöldið og þótti mér þá að þriggja metra langur björn legðist við hliðina á mér. Þetta gerðist næsta kvöld, að björninn lagðist við hlið mér. Þegar hann kom þriðja kvöldið og lagðist við hliðina á mér í rúminu spurði ég hann að nafni og hann svaraði: Very long story.

Svona er sköpunin, maður veit ekki alltaf hvað er draumur og hvað veruleiki. Þetta er að minnsta kosti alveg satt.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfa dreymdi mig að ég var komin inn í eldhús á Bessastöðum og hékk þar við eldhúsborðið. Eldhúsborð eru í mínum huga mesti galdrastaðurinn. En það er ekki tilviljun að ég minnist hér á drauma. Ef ég ynni einhvern tíma Nóbelsverðlaunin væri það fyrir allar litlu stúlkurnar sem ættu sér þann draum,“ sagði Elísabet og talaði því næst um mikilvægi þess að allir fái að segja sína sögu. 

Sagan hefur lækningamátt 

„Til hvers verður maður að segja söguna sína? Að leyfa ekki öðrum að segja sína sögu eru ein af helstu aðferðum feðraveldisins til að þagga niður í okkur. Hrein og klár forneskja,“ sagð Elísabet og tók fram að þess vegna væri það sér mjög mikilvægt að vera verðlaunuð fyrir að segja sögu sína. 

„Það var ekki sjálfsagt á þeim tíma sem það gerðist. Það hefði verið ómögulegt árið 1978. Eftir veikindin 1978 tók við botnlaust hyldýpi af skömm og ótta. Mér fannst ég útskúfuð.

Það er spurning hvernig þetta breytist? Englar alheimsins, og af hverju skrifar Einar Már um bróður sinn, kannski urðu ljóð og myndir bróður hans kveikjan að verkinu. Það varð hallarbylting í Geðhjálp þegar við sem höfum glímt við geðsjúkdóma tókum völdin og komum á nýrri stjórn. Ómæld eru svo svokölluð sjálfshjálparviðtöl í blöðum og tímaritum sem hjálpa og eru skref í áttina en merkilegt nokk, fólk er stundum skammað fyrir að opna sig í fjölmiðlum.

Sagan hefur lækningamátt og þess vegna er stundum lífsnauðsynlegt að við segjum söguna okkar,“ sagði Elísabet og bætti því við að kominn væri tími til þess að aðstandendur þeirra sem veikjast á geði fái sviðið. 

Sköpunin er galdur

Í ræðu sinni fjallaði Arndís Þórarinsdóttir um það hvernig afstaða hennar til skrifta hefði breyst í tímans rás. „Þegar ég byrjaði að fást við skriftir hafði ég mjög jarðbundna afstöðu til þeirra. Þetta var starf sem byggðist á gagnreyndum aðferðum sem hægt var að læra. Með þjálfun ykist fimi og með því að sitja við tölvuna átta tíma á dag, fimm daga vikunnar væri auðvelt að reikna út afkastahraða og skila sómasamlegum afurðum með reglulegu millibili.

Mér leiddist tal um dulúð starfsins. Flestum öðrum stéttum lukkast að sneiða hjá orðinu galdur þegar þær skrifa starfslýsingu.

Eftir nokkur ár á þessu undarlega sviði hef ég samt – þvert gegn vilja mínum – komist að þeirri niðurstöðu að störf listamanna séu í grunninn óskiljanleg og að það sem ég taldi áður hátimbraðar klisjur er ágætislýsing á veruleika.

Arndís Þórarinsdóttir.
Arndís Þórarinsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sköpunin er galdur. Stundum er fljótlegasta leiðin að settu markmiði að leggja tímabundið niður störf. Ofan á allt annað birtist svo jafnan fleira í textanum en höfundur vissi að hann kynni frá að segja, af því að undirvitundin – undirvitundin er mikilvægasti vinnufélaginn.

Þetta hefur reynst mér nokkurt áfall.

Við lifum á tímum skynsemi, mælanlegra afkasta og krafna um hagræðingu og aukna framleiðni. Grunnforsendan er sú að mannanna verk falli undir slíka mælikvarða.

Afköst rithöfundarins, á hinn bóginn, eru oft beinlínis neikvæð. Í dagslok höfum við iðulega fargað fleiri orðum en þeim sem eftir standa. Það að einhverjum bókum sé nokkru sinni lokið með þessu vinnulagi er staðreynd sem ég ímynda mér að Excel-skjölum heimsins yrði mjög brugðið að heyra af.

Þetta ósamræmi í veruleikanum hefur valdið mér nokkrum heilabrotum, sem leiða til spurninga um það af hverju einhver leyfi sér þessa uppreisn gegn skynsemi og mælikvörðum, að sinna ritstörfum.

Og þá neyðist ég til þess að ganga enn lengra og leyfa mér að segja að hvötin til þess að segja sögur sé köllun. Köllun til þess að helga sig rannsóknum á mennskunni og tungumálinu með verkfærum frásagnarlistarinnar. Og köllun er eitthvað sem hefur jafnvel enn minna pláss í nútímanum en galdur.

Þessi togstreita ætti að vera óbærileg, en hún er það samt ekki, af því að þótt verklag listamanna falli illa að viðmiðum samfélagsins á listin sjálf sinn ótvíræða sess í því. Það er ómetanlegt að búa í samfélagi þar sem er talað um sögur, sögur eru lesnar og sögur eru rannsakaðar og metnar. Það skiptir máli að búa í samfélagi sem stendur ekki á sama um bækur.

Hulda Sigrún Bjarnadóttir.
Hulda Sigrún Bjarnadóttir.

Íslenskt samfélag er samfélag lesenda.

Það er fjarstæða að helga sig því að skrifa sögur. En afstaðan til bókmenntanna sem birtist í tilvist Íslensku bókmenntaverðlaunanna er þýðingarmikil. Fyrirhöfnin sem svo margir leggja á sig til þess að þetta val geti farið fram og áhuginn sem almenningur sýnir valinu er birtingarmynd þess að bókmenntir skipta máli. Bókmenntir fyrir börn, bókmenntir fyrir fullorðna; skáldskapur og fræðaskrif, allt þetta hjálpar okkur að skilja heiminn og gerir okkur að betri, sterkari og umburðarlyndari manneskjum.

Daglega skynja ég virðingu, velvild og þakklæti í garð höfunda. Þessar viðtökur réttlæta það að við svörum kölluninni. Fyrir þessa velvild vil ég þakka í kvöld, um leið og ég þakka fyrir þessa dýrmætu viðurkenningu til okkar Huldu,“ sagði Arndís. 

Staðalmyndir oft langlífar

Í ræðu sinni rifjaði Sumarliði R. Ísleifsson upp að orðræðan að utan um Ísland hafi lengi átt hug hans. „Almennt séð getum við sagt að hugmyndin um Ísland sem hina illu eyju hafi verið ráðandi allt fram um 1800 en eftir það breytast viðhorf smátt og smátt. Í stuttu máli þá varð Ísland smám saman að útópíu Evrópu. Hún tók reyndar á sig ýmsar myndir en með hæfilegum alhæfingum má segja að Ísland hafi enn þá stöðu. Slíkar staðalmyndir hafa tilhneigingu til langlífis en  það er undir okkur komið hvort slík viðhorf dafna eða snúast upp í andhverfu sína. Við þekkjum dæmi þess.

Sumarliði R. Ísleifsson.
Sumarliði R. Ísleifsson.

Bókin, Í fjarska norðursins. Ísland og Grænland, viðhorfasaga í þúsund ár, fjallar um það hvernig umheimurinn leit á þessi tvö lönd langt í norðri frá öndverðu til samtímans. Elstu erlendu lýsingar á þessum löndum eru þúsund ára gamlar og stöðugt bætist í sarpinn í samtímanum.

Þegar ég hóf að kanna þetta efni fyrir margt löngu langaði mig að skilja hvað það væri einkum sem hefði áhrif á lýsingar á löndunum tveimur. Það er nefnilega svo að áður en við komum á tiltekinn stað, erum við full af fordómum, ekki endilega þó í neikvæðri merkingu.

Ég nefni því helstu þræði sem ganga í gegnum verkið. Hugmyndin um fyrirbærið eyju skiptir hér meginmáli, ýmist sælueyja eða djöflaeyja, útópía eða dystópía. Norðrið er annað lykilhugtak, þar birtast einnig andstæðurnar víti og paradís. Þessir strengir eru sem uppistaða í verkinu sem reyndar margir aðrir þræðir fléttast inn í.

Vitaskuld hefur margt breyst frá fyrstu lýsingum á eyjunum tveimur frá í öndverðu en athyglisverðari er kannski samfellan. Með hæfilegri alhæfingu má segja að fátt hafi breyst. Löndin tvö eru enn fjarlæg og framandi heimar fyrir erlenda gesti, svipað og var í árdaga.

Samanburður mikilvægur

Af hverju að bera saman þessi tvö lönd? Samanburður er í sjálfu sér mikilvægur, þá skýrast línur og hugmyndir mótast. Löndin tvö eru grannar, lík og ólík. Skyldi umheimurinn hafa fjallað um þau á svipaðan hátt eða ólíkan og hvers vegna? Svo er það samræðan. Þegar viðhorf til ákveðinna landa mótast gerist það yfirleitt með samræðu á milli umheims og heimafólks. Stundum er jafnvægi í þessari samræðu, oftar kannski ójafnvægi,“ sagði Sumarliði og þakkaði að lokum þann heiður sem honum væri sýndur með viðurkenningunni. 

„En hún deilist víða, með öllum þeim sem ég hef unnið með og rætt við um þessi efni, samstarfsfólki heima og heiman. Ég stæði heldur ekki hér án Sögufélags sem féllst á kosta miklu til við gerð bókarinnar, og leiddi mig til samstarfs við úrvalsfólk sem las handrit, ritstýrði myndum í verkið og hannaði bókina. Samræða og samstarf er grunnur þessa verks.“

Ítarlega er rætt við verðlaunahöfundana í Morgunblaðinu á morgun, miðvikudag. 

Allar nánari upplýsingar um verðlaunin og verðlaunahafa í gegnum tíðina má nálgast á vef Félags íslenskra bókaútgefenda, http://fibut.is/bokmenntaverdhlaun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert