Krapaflóðið í Jökulsá á Fjöllum tók í sundur stofnsamband Mílu milli Reykjahlíðar og Hjarðarhaga. Aðstæður eru erfiðar á svæðinu og hefur verið lokað fyrir alla umferð og vinnu í kringum brúna yfir Jökulsá sem veldur því að fresta verður allri vinnu við strenginn fram til morguns.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mílu.
Greint var frá því fyrr í kvöld að Vegagerðin hefði lokað þjóðvegi 1 á milli Mývatns og Egilsstaða vegna krapastíflu sem flæðir yfir veginn við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra hefur flætt yfir veginn vestan við brúna og flóðið skilið eftir sig gríðarlegt magn af krapa og ís. Krapahaugurinn er sagður líkjast snjóflóði en hann er um þriggja metra djúpur og nær yfir um 200 metra af veginum.
Unnið verður að því að moka af veginum frá og með kvöldinu en ljóst er að það mun taka langan tíma að klára það verkefni. Þá er alls óljóst í hvernig ástandi vegurinn er undir ísnum.
Uppfært: Í fyrri útgáfu kom fram að stofnstrengur Mílu hefði farið í sundur. Rétt er að um er að ræða mikilvægt stofnsamband Mílu sem fer um streng í eigu annars aðila.