Lokað yfir Jökulsá á Fjöllum vegna krapastíflu

Ísinn og krapinn sem safnast hefur upp minnir helst á …
Ísinn og krapinn sem safnast hefur upp minnir helst á snjóflóð og þekur um 200 metra af veginum vestan við brúnna yfir Jökulsá á Fjöllum. Ljósmynd/Lögreglan

Vegagerðin hefur lokað þjóðvegi 1 á milli Mývatns og Egilsstaða vegna krapastíflu sem flæðir yfir veginn við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum. Áin hefur skilað tveggja til þriggja metra háum jöklum upp á veginn samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vegagerðin hefur sent vinnuvélar á staðinn til að hreinsa upp af veginum. Hægt er að fara um veg 85 á meðan þjóðvegurinn er lokaður en þar er skafrenningur, hálka og snjóþekja.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra hefur flætt yfir veginn vestan við brúnna og flóðið skilið eftir sig gríðarlegt magn af krapa og ís. Krapahaugurinn er sagður líkjast snjóflóði en hann er um þriggja metra djúpur og nær yfir um 200 metra af veginum. 

Unnið verður að því að moka af veginum frá og með kvöldinu en ljóst er að það mun taka langan tíma að klára það verkefni. Þá er alls óljóst í hvernig ástandi vegurinn er undir ísnum. 

Áin sjálf virðist samt hafa rutt sig og rennur núna opin og íslaus undir brúna þarna við Grímsstaði á Fjöllum og vatnssöfnun virðist ekki í gangi á svæðinu eins og er. Talið er að krapaflóð þetta hafi hrannast upp um miðjan dag í dag uppúr kl. 15:00. Samkvæmt gögnum Veðurstofunnar virðist gríðarlegur toppur hafa komið í vatnshæð árinnar um miðjan dag í dag og svo snarfallið aftur. Lögreglan á norðurlandi eystra, Vegagerðin og Veðurstofan munu fylgjast með framgangi mála á vettvangi en óljóst er með opnun Hringvegar eins og fyrr segir,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert