Félagsleg og pólitísk þátttaka innflytjenda á Íslandi er almennt ekki mikil en ekki áberandi lítil samkvæmt niðurstöðum Birgis Guðmundssonar, dósents við Háskólann á Akureyri. Þá taka innflytjendur frekar þátt í kosningum eftir því sem þeir treysta Alþingi minna samkvæmt niðurstöðum Grétars Eyþórssonar, prófessors við sama skóla.
Þetta kemur fram á málþinginu Samfélag fjölbreytileikans: Samskipti heimamanna og innflytjenda á Íslandi, sem haldið var í Háskólanum á Akureyri í dag. Málþingið markar útgáfu bókar sem ber sama titil.
Bókin er safn átta bókarkafla eftir ýmsa fræðimenn sem byggja á gögnum úr rannsókninni Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi.
Félagsleg og pólitísk þátttaka innflytjenda er sem fyrr segir hvorki mikil né lítil á Íslandi en hún eykst með lengri búsetu á Íslandi, aldri og betri íslenskukunnáttu. Ekki var að merkja mun á kynjum né búsetu eftir landshlutum samkvæmt niðurstöðum Birgis Guðmundssonar.
Kjörsókn innflytjenda með kosningarétt var 19,1% í alþingiskosningum árið 2017 þar sem almenn kjörsókn var 81,2%. Kjörsókn innflytjenda var því fjórfalt minni en annarra á Íslandi við síðustu alþingiskosningar. Þetta kom fram í erindi Grétars Eyþórssonar.
Kjörsóknin var meiri í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018 meðal innflytjenda eða 30,3% þar sem almenn þátttaka var 67,2%. Í sveitarstjórnarkosningunum voru konur mun líklegri til þátttöku af innflytjendum.
Fram kom í erindinu að kjörsókn innflytjenda á Íslandi er ámóta og á öðrum Norðurlöndum.