Sjá fram á lokun eftir 20 ára starfsemi

Signý Einarsdóttir, talmeinafræðingur og einn af eigendum Talstöðvarinnar í Kópavogi.
Signý Einarsdóttir, talmeinafræðingur og einn af eigendum Talstöðvarinnar í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talstöðin í Kópavogi, sem hefur í rúma tvo áratugi tekið á móti börnum sem þurfa á aðstoð talmeinafræðings að halda, þarf líklega að loka eftir eitt til tvö ár vegna skorts á talmeinafræðingum. Um 350 börn eru á biðlista hjá stöðinni eftir aðstoð.

Að sögn Signýjar Einarsdóttur, talmeinafræðings og eins af eigendum stöðvarinnar, er ástæðan fyrir þessum skorti á talmeinafræðingum skerðingarákvæðið sem Sjúkratryggingar Íslands settu inn í rammasamning árið 2017. Í því felst að talmeinafræðingar sem hafa lokið meistaranámi þurfa að vinna annars staðar í tvö ár eftir útskrift áður en þeir fara á samning hjá Sjúkratryggingum. Talmeinafræðingarnir á Talstöðinni vinna mestmegnis fyrir SÍ.

Sárafár stöður í boði

Þeir talmeinafræðingar sem hafa lokið meistaranámi í Háskóla Íslands þurfa að ljúka sex mánaða handleiðslutímabili hjá reyndari talmeinafræðingum. Eftir að hafa til að mynda unnið við handleiðslu hjá Talstöðinni í sex mánuði þurfa þeir að hætta að aðstoða börnin sem þeir hafa verið með í talþjálfun og foreldrarnir þurfa að finna aðra talmeinafræðinga í þeirra stað, sem er bagalegt að mati Signýjar.

Að loknu handleiðslutímabilinu eiga talmeinafræðingar að vinna hjá stofnunum eða sveitarfélögum, til dæmis í skólum, leikskólum og á þjónustumiðstöðvum. Stöðurnar í boði hafa aftur á móti verið sárafáar og hafa þeir átt erfitt með að fá störf.

Signý, sem situr í stjórn Félags talmeinafræðinga á Íslandi, segir …
Signý, sem situr í stjórn Félags talmeinafræðinga á Íslandi, segir að félagið sé að hefja viðræður við stjórnvöld út af málinu í von um úrbætur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn til að taka við keflinu

Signý segir um sparnaðarráðstöfun að ræða hjá SÍ og engin fagleg rök vera fyrir hendi. „Talstöðin hefur verið rekin í rúm 20 ár. Við erum fjórir talmeinafræðingar sem erum að komast á aldur en við megum ekki taka inn til okkar nýútskrifaða talmeinafræðinga, sem hefði verið mjög eðlilegt. Ég er með nema sem myndu gjarnan vilja halda áfram en mega það ekki út af þessum skerðingarákvæðum. Við sjáum fram á að þurfa að loka þessari stofu,“ greinir hún frá.

Um sjö til átta manns hafa útskrifast úr talmeinafræði hérlendis á ári hverju en til ársins 2010 var aðeins hægt að fara utan í nám. „Þetta hefur verið mjög fámenn stétt en með þessu MA-námi í HÍ er þetta gjörbreytt staða og ætti að vera það hjá börnunum,“ segir hún og heldur áfram: „Það þarf aukið fjármagn í þennan geira og aukinn mannskap. Það þýðir ekkert að vera með svona skerðingarákvæði á meðan öll þessi börn eru að bíða eftir talþjálfun.“

Bara á Talstöðinni eru um 350 börn á biðlista eftir …
Bara á Talstöðinni eru um 350 börn á biðlista eftir því að komast að. mbl.is/Kristinn Magnússon

17 til 24 mánaða bið

Bara á stofunni þeirra eru um 350 börn á biðlista eftir því að komast að. Þar þurfa þau að bíða í um 17 til 24 mánuði eftir því að fá aðstoð eftir að hafa áður oft og tíðum þurft að bíða í langan tíma eftir því að fá greiningu annars staðar. Þetta veldur að vonum áhyggjum hjá foreldrum þeirra. „Þetta er grafalvarlegt mál. Við erum að tala um viðkvæmasta skeið máltökunnar. Við erum að fá barn sem er kannski þriggja ára gamalt, sem er varla farið að tala og það er ekki að komast í talþjálfun fyrr en eftir dúk og disk,“ útskýrir hún og segir að um 800 börn séu á biðlista á höfuðborgarsvæðinu. Á landinu öllu séu þau líkast til hátt í tvö þúsund.

Þarf að grípa inn í snemma 

Signý, sem situr í stjórn Félags talmeinafræðinga á Íslandi, segir að félagið sé að hefja viðræður við stjórnvöld út af málinu í von um úrbætur. „Þetta stangast á við stefnu barnamálaráðherra. Hann talar um að barnið eigi að vera hjartað í kerfinu og málefni barna eigi að snúast um þau en ekki kerfið,“ segir hún.

„Það sem fólk áttar sig kannski ekki nógu mikið á er að vandinn hjá börnum sem eru með alvarleg frávik í málþroska getur fylgt þeim allt lífið,“ bætir hún við. Þess vegna sé nauðsynlegt að grípa inn í snemma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert