Þegar veðurglugginn, sem John Snorri og föruneyti ætluðu að láta reyna á til að komast á topp fjallsins K2, lokaðist fyrr en spáði í gær neyddust þeir til að ganga aftur niður í grunnbúðir enda veðrið orðið mjög slæmt. „Það lægði ekkert veðrið og vindurinn var orðinn 65 km/klst. Þá ákváðum við að fara strax niður daginn eftir,“ sagði John Snorri í samtali við mbl.is
„Við vorum að ganga frá, vorum búnir að setja bakpokana út og vorum að berjast við að pakka tjaldinu saman. Það var það mikið rok að við vorum að vandræðast með tjaldið. Þá fauk upp einn bakpokinn, hans Ali,“ sagði John Snorri.
Hann sagði að bakpokinn hafi fokið fram af klettabrún, fallið um tvo kílómetra niður og sprungið. „Allar þrjár súrefnisgrímurnar okkar voru í bakpokanum, eldunargræjurnar okkar og talstöðin okkar, þannig að við erum í smá vandræðum,“ sagði John Snorri.
Hann segir að þríeykið þurfi að halda út á morgun til þess að leita að innihaldi bakpokans við næstu búðir fyrir ofan grunnbúðirnar.
John Snorri segir að þeir hafi fundið hitunargræjurnar en ekki sé komið í ljós hvort að þær virki. Útvega þarf nýjar súrefnisgrímur sem gæti reynst snúið þar sem John Snorra grunar að margir sem eru í grunnbúðunum muni gera atlögu að toppnum í næsta veðurglugga.
John Snorri segir að lítill veðurgluggi eigi að myndast þann 29. janúar en hann sé aðeins um 7-10 klukkustundir. Hann segir hann sennilega of stuttan til að ná á toppinn. Þá sé næsti mögulegi gluggi á milli 2. og 4. febrúar.