Allar líkur eru enn á því að þorri þjóðarinnar muni hafa fengið bólusetningu gegn kórónuveirunni fyrir lok annars ársfjórðungs, þ.e. fyrir júnílok. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í umræðum um öflun og dreifingu bóluefna á Alþingi í dag.
Fyrirtækin Pfizer og AstraZeneca hafa bæði borið fyrir sig framleiðsluvanda, sem muni hægja á afhendingu efna þeirra, þar á meðal til Íslands. Sagði Svandís talið að framleiðslan myndi þó aðeins tefjast næstu vikur. Síðar verði þær tafir unnar upp.
„Þetta er auðvitað ekki nákvæmlega eins og við myndum vilja hafa það, en aðalatriðið er að enn eru allar líkur á að við munum ná að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs, sem hefur verið markmiðið frá upphafi,“ sagði Svandís.
Svandís sagði mikilvægt að fólk hikaði ekki við að láta bólusetja sig. Þótt efnið hafi verið þróað með methraða hafi ekki verið stigið yfir nein öryggisstig í þróun þess.
Evrópusambandið hefur gert samninga við sex lyfjafyrirtæki um bóluefni gegn Covid-19, en af þeim hefur Ísland þegar samið við Evrópusambandið vegna fjögurra þessara framleiðenda, Pfizer, Moderna, AstraZeneca og Janssen.
Bóluefni Pfizer og Moderna eru þegar farin að berast til landsins, en búist er við að bóluefni AstraZeneca fái markaðsleyfi í Evrópu á föstudag og verði komið í dreifingu tveimur vikum síðar. Sagði Svandís að magn og dreifingaráætlun lægi ekki fyrir en líkur væru á að Ísland fengi 13.800 skammta í febrúar
Þá sagði Svandís að samningar við ESB vegna framleiðandans CureVac væru langt komnir og gert ráð fyrir að samningur verði undirritaður í byrjun febrúar.