Fraktflutningavél Bluebird af gerðinni Boeing 737-400 á leið til Keflavíkur frá Dyflinni var snúið við í dag eftir að þrýstingur í flugklefanum féll þegar vélin var stödd um 140 sjómílur suðvestur af Færeyjum. Vélinni var beint til Aberdeen í Skotlandi þar sem hún lenti örugglega.
Þrír voru um borð í vélinni sem bar 7,2 tonn af farmi. Í tilkynningu frá Bluebird segir að flugmennirnir hafi fylgt ströngum öryggisreglum, bæði flugfélagsins og Boeing, sem og verklagi til hins ýtrasta um leið og vandamálið kom upp. Aldrei hafi verið nein hætta á ferðum og vélin lenti á eðlilegan máta. Flugvélin er nú í skoðun á flugvellinum í Aberdeen.