Takmörk eru á því hversu mikið fjármagn er hægt að setja í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, eins og annað. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Hann segir þó að ríkisstjórnin horfi alltaf til þess hvort bæta eigi ríkisstofnunum uppsafnaðan halla á fjáraukalögum til að þær geti betur sinnt verkefnum sínum.
„Til þess að uppfylla þær kröfur þarf hallareksturinn að vera óhjákvæmilegur, ófyrirséður og tímabundinn. Ég sem samgönguráðherra get auðvitað haldið því fram að óvenjuþungur vetur sé það sannarlega,“ segir Sigurður Ingi.
Fjórir bílar festust á Öxnadalsheiði um helgina og urðu að moka sig út úr 150 metra skafli á veginum en meðan á þeirri vinnu stóð féll annað snjóflóð á veginn. Í samtali við mbl.is um helgina sagði Hannes Rúnarsson atvinnubílstjóri að hann hefði óskað eftir aðstoð Vegagerðarinnar við að ryðja veginn en fengið þau svör að snjóruðningsbíll, sem var á leið niður heiðina, gæti ekki snúið við þar sem vetrarþjónusta væri búin þann daginn.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ekki hægt að bæta vetrarþjónustu nema að til komi fjármagn frá ríkinu, en stofnunin glímir við hallarekstur eftir óvenju dýra vetur undanfarin ár.
„Við erum í látlausum áskorunum um að auka vetrarþjónustu og höfum sannarlega verið að gera það á undanförnum árum, með auknu fjármagni og þjónustu á sífellt stærri svæðum á landinu, þar sem er verið að reyna að svara þeirri eftirspurn sem atvinnulífið og samfélagið kallar á á hverjum tíma,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segist ekki muna eftir því síðastliðin tuttugu ár að snjóflóð hafi fallið yfir veginn á Öxnadalsheiði. „En við búum á Íslandi og þess vegna þarf ákveðinn sveigjanleika til en við verðum engu að síður að fara eftir einhverjum verklagsreglum til að halda fjárlög á hverjum tíma.“