180 milljónir þyrftu að bætast við

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. mbl.is/Hari

Ef skerðingarákvæði sem sett var inn í rammasamning árið 2017 vegna talmeinafræðinga verður fellt niður þarf að hækka fjárframlög til málaflokksins um allt að 60%, eða í kringum 180 milljónir króna.

Þetta segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ).

Talmeinafræðingar hafa lýst yfir óánægju með ákvæðið og segja þeir óásættanlegt að langir biðlistar séu eftir þjónustu þeirra á sama tíma og einkastofur mega ekki ráða strax inn nýútskrifað fólk. Vegna fárra starfa í boði á það erfitt með að öðlast þá tveggja ára reynslu sem krafist er áður en það má fara á samning hjá SÍ.

Tillaga frá talmeinafræðingum

Aðspurð segir María gagnrýni talmeinafræðinga koma SÍ spánskt fyrir sjónir því ákvæðið hafi komið inn í rammasamninginn að tillögu þeirra. Ákvæðið hafi átt að skila auknum gæðum í þjónustunni. „Þau og við vorum sammála um að þau sem veittu þessa þjónustu hefðu gott vald á íslenskri tungu,“ greinir hún frá. „Þannig að talmeinafræðingar lögðu það til að til þess að tryggja að svo væri þá væri gerð krafa um tveggja ára starfsreynslu á Íslandi.“

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Hjörtur

Á síðasta ári greiddu SÍ um 305 milljónir króna í þjónustuna. Ef framboðið á talmeinafræðingum verður aukið sem nemur því að fella niður umrætt ákvæði og allir sem núna eru á tveggja ára bið kæmu í fulla vinnu þyrfti ríkisvaldið að auka fjárveitinguna til málaflokksins um allt að 60%, bendir María á. Hún kveðst vitaskuld vera sammála því að fólk fái þjónustu án þess að þurfa að bíða eftir henni en til þess þurfi aukið fjármagn.

Framlenging til næsta hausts

Aðspurð segist hún ekki hafa upplýsingar um að nýtt fé sé að koma inn í málaflokkinn. SÍ hefur verið falið að framlengja rammasamninginn til skamms tíma, eða til næsta hausts. „Við skiljum það þannig að það sé vegna þessarar mögulegu endurskoðunar á fyrirkomulagi, að færa þetta nær notandanum með því að setja þetta í skólana,“ segir hún en samtal er í gangi um að færa hluta af þjónustunni meira þangað inn, að minnsta kosti fyrir börn á fyrsta skólastigi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

María segir Sjúkratryggingar Íslands ekki hafa fengið erindi varðandi endurskoðun á ákvæðinu. Heilbrigðisráðherra sé aftur á móti að skoða málið. Stofnunin hefur sent honum viðeigandi upplýsingar vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert