„Við höfum verulegar áhyggjur af svæði þarna fyrir ofan Vesturfarasetrið,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra, við mbl.is. Lögreglan hefur ákveðið í samráði við ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands að loka hafnarsvæðinu á Hofsósi vegna snjóflóðahættu.
Myndast hefur stór sprunga í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins en Stefán segir að sprungan sé hátt í 50 metra löng og talið sé að hún geti verið á milli fimm og sex metrar á dýpt þar sem hún er dýpst.
Lokunin nær yfir hafnarsvæðið frá göngubrú yfir Hofsá við Frændgarð og yfir að Nöfum og er öll umferð um svæðið stranglega bönnuð þar til annað verður ákveðið.
„Við höfum áhyggjur af því að þessi hengja sé að fara og þegar hún gerir það fer mikill massi á hreyfingu. Við tókum því þá ákvörðun í nótt að loka svæðinu,“ segir Stefán.
Aðspurður svarar hann því játandi að svæðið verði lokað þar til snjóflóð fellur eða staðan metin þannig að hætta á því sé ekki lengur til staðar.
„Næstu dagar fara í að átta sig á því hvað eða hvort eitthvað sé hægt að gera til að svæðið verði öruggara. Þangað til verður það lokað,“ segir Stefán sem bendir enn fremur á að ekki þurfi að rýma íbúðahús í þorpinu vegna snjóflóðahættunnar.