Ingibjörg Iða Auðunardóttir er nýr forseti Gunnhildar, félags ungra jafnaðarmanna í Garðabæ. Hún var kosin á aðalfundi félagsins í gær og sitja ásamt Ingibjörgu í stjórn félagsins þau Askur Hrafn Hannesson, Gabríella Snót Schram, Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir og Theodóra Fanndal Torfadóttir.
Félagið hefur því verið endurvakið eftir hátt í áratugalangt hlé. Í tilefni þess var kosið um nýja Gunnhildar-nafnið í gær, en það vísar til kennileitis í Vífilstaðarhlíð og segir sagan að það heiti eftir hjúkrunarkonu á gamla Vífilsstaðaspítala.
Á aðalfundi félagsins í gær var einnig samþykkt stjórnmálaáætlun þar sem lögð er áhersla á félagshyggju, festu í loftslagsmálum og lýðræðislega þátttöku ungs fólks, eins og segir í tilkynningu til fjölmiðla.
„Bæjarstjórn Garðabæjar hefur verið leidd af íhaldsflokkum í tugi ára og vilja UJGBR leggja grunn að fjölgun jafnaðarmanna í bæjarfélaginu og bættri umræðu þar sem lögð verður áhersla á félagshyggju- og velferðarmál. Áskoranir okkar nútímavædda samfélags eru flóknar, margvíslegar og þess eðlis að þær munu koma til með að hafa áhrif á komandi kynslóðir. Það er því gífurlega mikilvægt, í allri þeirri umræðu sem fram fer, að réttmætar raddir ungs fólks heyrist og verði raunverulega teknar til greina þegar að ákvarðanatöku kemur,“ segir jafnframt í tilkynningu frá félaginu.