Lögreglu barst tilkynning laust fyrir klukkan fjögur í dag um gæsahóp sem var vegfarendum til trafala í Bríetartúni í Reykjavík. Gæsirnar settust niður til hvíldar á miðri akbraut og harðneituðu að færa sig. Þær gáfu sig þó loks þegar lögreglu bar að garði.
Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að þrjú umferðaróhöpp urðu á höfuðborgarsvæðinu á milli klukkan 11 og 17 í dag. Engin slys urðu á fólki.
Þá féll knapi af baki í Árbænum en ekki er vitað um að hann hafi slasað sig. Hann leitaði þó sjálfur á slysadeild til öryggis.