„Ofboðslega leiðinlegt mál“

Leifur S. Garðarsson
Leifur S. Garðarsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Körfuknattleiksdómari hefur verið tekin af dómaraskrá Körfuknattleikssambands Íslands eftir að hann varð uppvís að því að senda óviðeigandi skilaboð til leikmanns í meistaraflokki kvenna. Hafði hann m.a. dæmt leiki hjá viðkomandi leikmanni.

Þetta staðfestir Hannes S. Jónsson formaður KKÍ í samtali við mbl.is. Að sögn hans kom málið upp snemma á síðasta ári og var það leikmaðurinn sem fékk rafræn skilaboð frá dómaranum sem tilkynnti málið. Að sögn Hannesar var um ein skilboð að ræða.

Dómarinn var tekinn af dómaralista.
Dómarinn var tekinn af dómaralista.

Skólastjóri í Hafnarfirði 

Samkvæmt heimildum mbl.is er umræddur dómari Leifur S. Garðarsson, skólastjóri í Áslandsskóla í Hafnarfirði. Þá hefur Leifur einnig m.a. verið knattspyrnuþjálfari hjá FH, Fylki og Víkingi.

„Eftir að við fengum tilkynningu um málið kom viðkomandi dómari til okkar á fund. Þar var honum tilkynnt að hann væri ekki lengur á niðurröðun dómaranefndar. Viðkomandi dómari hefur ekkert dæmt eftir að okkur barst þessi vitneskja,“ segir Hannes.

Hannes S. Jónsson.
Hannes S. Jónsson. mbl.is/Frikki

„Í siðareglum KKÍ fyrir dómara segir: Sýndu leikmönnum, þjálfurum og öðrum sem koma að leiknum virðingu. Vertu til fyrirmyndar í framkomu og hegðun. Misnotaðu aldrei stöðu þína sem dómari. Það var okkar mat að þessi skilaboð væru þess eðlis að hann hefði brotið gegn þessum reglum,“ segir Hannes.

Hannes á ekki von á því að dómarinn komi til með að dæma aftur. 

Hvetur aðra til að tilkynna sambærileg atvik

Hannes segir að málið sé þungbært fyrir körfuknattleikshreyfinguna. „Þetta er ofboðslega leiðinlegt mál og svona mál eru mjög erfið. En númer 1, 2 og 3 er gríðarlega mikilvægt að leikmenn tilkynni sambærileg atvik ef þau koma upp. Annaðhvort til yfirvalda eða viðkomandi sérsambands,“ segir Hannes.

Þá bendir Hannes á að síðasta haust hafi tekið til starfa óháður samskiptafulltrúi íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Fagaðili sem er utan við íþróttahreyfinguna. „Ef einhver telur sig hafa orðið fyrir áreiti þá þarf fólk að tilkynna það og ég hvet til þess,“ segir Hannes.

dv.is sagði fyrst frá málinu. Er þar m.a. vísað til orða leikmanna í deildinni sem segja að það sé ekki einsdæmi að dómarar nálgist leikmenn með þessum hætti og sendi þeim rafræn skilaboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert