Greining Íslandsbanka spáir 8% hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis til ársins 2023. Í þjóðhagsspá bankans er meðal annars fjallað um fasteignamarkaðinn en íbúðamarkaður hefur komið töluvert á óvart frá því kórónukreppan skall á.
„Verð hefur almennt haldið áfram að hækka og veltan verið lífleg lengst af. Við teljum ljóst að miðlun peningastefnunnar yfir í minnkandi greiðslubyrði húsnæðislána og þar með áhrif bæði á kaupgetu á markaði og ráðstöfunartekjur almennings er orðin miklu virkari en áður var. Þar við bætist að framboð af nýjum eignum hefur verið takmarkað á sumum svæðum og fjárhagur flestra heimila var traustur þegar kórónukreppan skall á.
Horfur eru á að framboð nýrra íbúða verði áfram takmarkað næstu misserin. Þá er verulegur hluti heimila ágætlega í stakk búinn fjárhagslega til að ráðast í fasteignakaup þegar þörf krefur eða áhugi vaknar. Útlit er einnig fyrir að lánskjör á íbúðalánum verði áfram með allra hagstæðasta móti. Við teljum því forsendur fyrir því að íbúðaverð haldi áfram að hækka í takti við almennt verðlag og jafnvel gott betur. Í heild gerum við ráð fyrir því að raunverð íbúðarhúsnæðis hækki um ríflega 8% fram til loka spátímans,“ segir í þjóðhagsspá Íslandsbanka sem nær til ársins 2023.