Stjórnkerfi klukkunnar á stafni Akureyrarkirkju er bilað og má því segja að tíminn standi í stað á Akureyri, þar sem klukkan er 27 mínútur í níu og hefur verið það vikum saman.
Ekki hefur verið hægt að hringja út við lok jarðarfara en handhringt hefur verið inn í jarðarfarir með því að toga í kaðal sem festur er við litla bjöllu. Sú aðferð býður þó alls ekki upp á sama hljóm að því er segir á vefnum Akureyri.net.
Senda þarf stjórnkerfi klukkunnar úr landi til framleiðandans til að láta gera við það en kerfið stýrir bæði bjöllum á þaki og klukkunni á framhlið kirkjunnar.