Stefnt er að því að stjórnun og rekstur nýs leikskóla við Kleppsveg 150-152 heyri undir leikskólann Brákarborg sem er í næsta nágrenni. Með þeirri stækkun mun Brákarborg rúma 160 - 170 börn í tveimur húsum.
Á fundi sínum 26. janúar samþykkti skóla- og frístundaráð samhljóða að leita eftir umsögnum foreldraráðs og foreldrafélags Brákarborgar, starfsfólks og íbúaráðs Laugardals um að stækka Brákarborg með þessum hætti, að því er segir í fréttatilkynningu frá borginni.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í nóvember að kaupa húsnæði kynlífstækjabúðarinnar Adam og Evu á Kleppsvegi sem lið í þeirri áætlun að bjóða megi börnum allt frá 12 mánaða aldri vist í leikskólum borgarinnar.
Upphaflega var stefnt að því í aðgerðaáætluninni Brúum bilið að fjölga leikskólarýmum um 700-750 á árunum 2019-2023 með byggingu nýrra leikskóla, viðbyggingum og/eða fjölgun leikskóladeilda við starfandi leikskóla, einkum þar sem spurn eftir leikskólarýmum er mikil. Nú er verið að endurskoða þá áætlun og er stefnt að því að rýmum fjölgi talsvert meira á tímabilinu. Liður í því er að bæta við verkefnum sem fela í sér endurbætur á eignum borgarinnar svo þær megi hýsa nútímalegt leikskólastarf.