Gert er ráð fyrir að bólusetning viðkvæmustu hópa samfélagsins gegn kórónuveirunni ljúki á fyrsta ársfjórðungi. Það verður mikill áfangi sem muni hafa merkjanleg áhrif á sóttvarnaráðstafanir en þar með eru þær ekki úr sögunni. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
Segir Katrín að það séu um 50 þúsund manns, en undir það falla fyrstu fimm forgangshópar (sjá mynd að neðan), allir sem náð hafa áttræðisaldri og eitthvað niður áttræðisaldurinn.
Katrín viðurkennir að óvissan sé mikil enda allar áætlanir háðar afköstum bóluefnaframleiðenda. „Afhendingaráætlanir bóluefna hjá einstökum fyrirtækjum hafa verið síbreytilegar, nú síðast AstraZeneca sem var mjög stór aðili í okkar innkaupum á bóluefni,“ segir Katrín.
AstraZeneca hefur ekki staðið við áætlanir gagnvart löndum Evrópusambandsins og Íslandi vegna vandræða í verksmiðjum þess í Evrópu og greindi fyrr í mánuðinum frá því að aðeins yrði hægt að afhenda brot af því sem til stóð á fyrsta ársfjórðungi. Viðræður milli Evrópusambandsins og fyrirtækisins standa yfir, en ESB krefst þess að fyrirtækið leiti annarra leiða til að standa við áætlun til að mynda með því að flytja bóluefni frá öðrum verksmiðjum sínum til Evrópu.
Áætlanir gera ráð fyrir að 67 þúsund skammtar af bóluefni frá þremur framleiðendum hafi borist hingað til lands fyrir febrúarlok, en það myndi nægja til að bólusetja 33.500 manns. Ljóst er að áætlanir um bólusetningar viðkvæmasta hópsins fyrir lok mars eru þó háðar því að afhendingaráætlun AstraZeneca standist að mestu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi fyrr í vikunni að gert væri ráð fyrir að framleiðsluvandi AstraZeneca hefði aðeins áhrif á framleiðsluna til nokkurra vikna en að síðan yrði hallinn unninn upp. Aðspurð segir Katrín að enn sé gengið út frá því og að samkomulagið til febrúarloka standist.
Við það bætast vangaveltur um hvort bóluefni Astra Zeneca þyki veita næga virkni fyrir elsta aldurshópinn. Þýska bólusetningaráðið (STIKO) hefur mælt gegn noktun bóluefnisins fyrir fólk eldra en 65 ára vegna skorts á gögnum sem styðja næga virkni þess.
Búist er við að Lyfjastofnun Evrópu veiti bóluefninu markaðsleyfi á morgun og hefur því verið velt upp hvort stofnunin setji sömu fyrirvara um aldur. Ljóst er að það myndi setja strik í reikninginn hvað varðar bólusetningu viðkvæmasta hópsins.
Þótt bólusetningum viðkvæmasta hópsins ljúki er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. „Við munum finna fyrir ákveðnum létti en það munu enn þurfa að vera sóttvarnaráðstafanir um nokkurn tíma,“ segir Katrín.
Næsti áfangi sé þegar hjarðónæmi er náð, en Katrín segir erfitt að meta hvenær það verður fyrr en vitað er með vissu hvert hlutfall ólíkra bóluefna verður enda veita þau mismunandi vernd.
Heilbrigðisráðherra hefur talað um að „þorri þjóðarinnar“ eigi að vera bólusettur fyrir júnílok. Spurð út í það markmið, og hver sé skilgreiningin á „þorra“ segist Katrín frekar vilja nota orðið meirihluti. Það þýði jú bara um 51%. Hvort það nægir til að ná hjarðónæmi verður tíminn að leiða í ljós.