Grænfáninn dreginn að húni í áttunda sinn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Haukur Hákon Loftsson, nemandi við skólann.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Haukur Hákon Loftsson, nemandi við skólann. mbl.is/Árni Sæberg

Á fallegum degi sem þessum verður manni hugsað til sköpunarverksins og mikilvægis þess að vernda það fyrir komandi kynslóðir. Eitthvað á þessa leið, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áður en hún dró Grænfánann að húni fyrir utan Fjölbrautaskólann í Ármúla í hádeginu.

Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning, í umsjá Landverndar hér á landi, veitt skólum sem leggja áherslu á umhverfisvernd í rekstri og kennslu. Viðurkenningin er veitt til tveggja ára í senn, en Fjölbrautaskólinn í Ármúla tók í dag við Grænfánanum í áttunda sinn.

Í ræðu sinni sagði Katrín gleðiefni hvernig umræða um umhverfismál hefði þróast á þeim tæpu tuttugu árum sem hún hefur verið í pólitík. Umhverfisvernd hefði farið frá því að vera jaðarmál yfir í mál sem allir – eða nær allir – teldu miklu skipta. Því væri ekki síst að þakka ungu fólki, sem væri drifkrafturinn í umræðum um loftslagsmál nú á tímum.

„Þetta verkefni er ákveðin undirstaða í því hvernig við getum stuðlað að umhverfisvernd á okkar vinnustað,“ segir Katrín. Umhverfisvernd snúist að miklu leyti um að endurhugsa það sem maður gerir í daglegu lífi.

Katrín dregur grænfánann að húni.
Katrín dregur grænfánann að húni. mbl.is/Árni Sæberg

Litar allt skólastarfið

Magnús Ingvarsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segir í samtali við mbl.is að skólinn hafi verið fyrstur framhaldsskóla til að hljóta Grænfánaviðurkenninguna árið 2006. Í því felist að áhersla sé lögð á umhverfisvernd í skólanum, þar með talið að draga úr matarsóun, auka við flokkun og hvetja til notkunar vistvænna samgangna. Þá hafi skólinn innleitt menntun til sjálfbærni í kennsluna og sett sér umhverfisstefnu. „Það má segja að þetta liti allt starf í skólanum.“

Sem fyrr segir gildir viðurkenningin til tveggja ára í senn, en að svo búnu þarf að sækja um á ný og uppfylla sífellt metnaðarfyllri kröfur.

Aðspurður segir Magnús að viðtökur nemenda hafi verið býsna góðar. „Þessir krakkar koma úr leikskólum og grunnskólum þar sem er verið að skoða þessa hluti og tala um þá, þannig að þeir hafa alist upp við þessi mál. Þeir kenna oft og tíðum foreldrum sínum,“ segir hann og bætir við að umræðu um umhverfismál hafi fleygt fram síðasta áratuginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert