Hreinsunarstarf á skíðasvæðinu í Skarðsdal við Siglufjörð er í fullum gangi eftir að snjóflóð féll þar í síðustu viku og hreif með sér aðstöðu skíðasvæðisins, bæði miðasölu og skíðaleigu, sem og einn troðara, og gjöreyðilagði.
Tvær stórar vinnuvélar voru að störfum þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is litu við skömmu eftir hádegi í dag, auk tveggja starfsmanna sem unnu að því að ná verðmætum úr illa förnu miðasöluhúsinu. Að sögn Egils Rögnvaldssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins, er áætlað að hreinsa til á svæðinu og koma húsa- og gámarústum á brott áður en reistir verða gámar svo koma megi starfsemi skíðasvæðisins aftur af stað.
Búið er að aflétta hættustigi vegna snjóflóðahættu á svæðinu, en Egill segir þó að meðan sé verið að vinna vilji þeir hafa sem minnsta umferð við skíðasvæðið. Lögreglan fylgdist vel með og elti bifreið blaðamanns og ljósmyndara upp á svæðið til að kanna hvort ekki væri allt með felldu.
„Það er búið að vera að taka þetta allt út hérna í gær og í dag og þetta er orðið stöðugt. Það er engin snjóflóðahætta hérna núna en við viljum hafa sem minnsta umferð hérna,“ segir Egill í samtali við mbl.is.
Mildi þykir að skíðalyftur svæðisins hafi sloppið við flóðið, en flóðið fór nánast alveg að neðstu lyftunni sem flytur skíðaiðkendur upp á svæðið. „Það fór smá flóð að henni. Hefði lyftan farið í klessu, það er svolítill pakki að redda því, en það er alltaf hægt að redda svona aðstöðu með einhverjum gámum,“ segir Egill.
Hann segir að til framtíðar sé horft til þess að skíðasvæðið byrji ofar, talsvert fyrir ofan neðstu lyftuna, þá ekki síst til að forða skíðasvæðinu frá snjóflóðahættunni.
Egill vonast til að hægt verði að opna svæðið aftur fyrir miðjan næsta mánuð, enda séu bæjarbúar og aðrir ólmir að komast í fjallið. „Þetta er bara aðdráttarafl hérna hjá okkur og það fjölgar alltaf gestum. Þetta er að verða alltaf vinsælla og vinsælla og bara vetraríþróttir í Fjallabyggð. Þetta er þvílík aukning.“
Egill hefur verið forstöðumaður skíðasvæðisins frá 2008 og hefur einu sinni áður upplifað snjóflóð á skíðasvæðinu árið 2010, en þá stoppaði það mun ofar. Gestur Hansson, sérfræðingur frá Veðurstofu Íslands, sem blaðamaður hitti á svæðinu, segir að raunar hafi ekki hafi verið farið að fylgjast með snjóflóðahættu á svæðinu fyrr en eftir flóðið 2010.
Gestur segir flóðið ekki hafa verið mjög stórt en það hafi verið mjög hraðfara, sem sést ekki síst á splundruðum rúðum í aðstöðu skíðasvæðisins, sem flóðið flutti niður hlíðina.
„Staðan er alveg þokkaleg, við erum búin að taka stöðuna núna og miðað við það sem við erum búin að sjá er ekki mikið að gerast. Það hefur skafið mikið í burtu. Og við erum ekki að sjá nein ný flóð.“