Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis leggur til að 30 einstaklingar fái íslenskan ríkisborgarétt með lögum. Meðal þeirra er breski tónlistarmaðurinn Damon Albarn.
Frumvarp meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar
Damon Albarn, sem fæddist árið 1968, sló fyrst í gegn með hljómsveitini Blur sem náði gríðarlegum vinsældum. Hann hefur síðan starfað með sveitum eins og Gorillaz og The Good, the Bad & the Queen. Hann hlaut OBE-orðu úr hendi Bretadrottningar fyrir fjórum árum fyrir mikilsverð tónlistarstörf.
Damon Albarn kom fyrst til Íslands fyrir tæpum aldarfjórðungi, árið 1996, á hátindi vinsælda hljómsveitarinnar Blur. Hann var fyrst einn á ferð og kynnti sér næturlífið, eins og fjallað var þá um í fréttum. Skömmu síðar var Blur byrjuð að hljóðrita nýja plötu í London en meðlimirnir komu síðan allir til Reykjavíkur og luku hér upptökum á fimmtu breiðskífu sveitarinnar, sem var einfaldlega nefnd eftir henni, Blur.
Albarn sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir réttu ári, að hann hefði bundist landinu sterkum böndum á þessum tíma og skömmu seinna festi hann sér lóð og hóf að byggja hús í úthverfi Reykjavíkur með tilkomumikllu útsýni yfir ströndina og hafið, í átt að Snæfellsjökli og Esju. Þetta útsýni var kveikjan að og efniviðurinn í nýju tónverki listamannsins, The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows , sem hann ætlaði að flytja ásamt stórri hljómsveit, með strengjum og blásurum, í rómuðum tónleikasölum í nokkrum evrópskum stórborgum Evrópu á síðasta ári, þar á meðal í Hörpu, en kórónuveirufaraldurinn varð til þess að þeim áætlunum var slegið á frest.