Almennt eru taldar litlar líkur á að hryðjuverk verði framið á Íslandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um hættumat vegna hryðjuverkaógnar hér á landi.
Deildin hefur reglulega frá árinu 2007 unnið sambærilegar skýrslur. Meðal annars er horft til hryðjuverkaógnar í nágrannalöndum og öðrum ríkjum Evrópu þar sem sambærilegt hættumat hefur verið gert.
Fram kemur í niðurstöðunum að hættustig sé óbreytt frá síðustu skýrslu, eða í meðallagi. Í því felst að almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.
Meðal þess sem hefur áhrif á mat á hættustigi eru takmarkaðar hryðjuverkavarnir hér á landi. „Við mat á því hve mikil hætta er til staðar verður ekki fram hjá því litið að veikleikar í hryðjuverkavörnum eru talsverðir hér á landi. Sú óvissa sem ríkir um raunverulegt ástand hér á landi vegna skorts á frumkvæðislöggæslu og þekkingarbrests er stór þáttur í því,“ segir í skýrslunni.
Við gerð skýrslunnar var stuðst við aðferðafærði Europol og einnig horft til þeirrar nálgunar sem samstarfsaðilar greiningardeildar á Norðurlöndum beita. Áhættuvísarnir sem nágrannalönd okkar hafa skilgreint eru bornir saman við upplýsingarnar sem íslensk lögregla býr yfir. Jafnframt er horft til stærðar íslensks samfélags, legu landsins og annarra þátta sem eru einkennandi fyrir Ísland, segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Við mat á hryðjuverkaógn á Íslandi er einnig horft til þróunar erlendis. Fyrri skýrslur greiningardeildar eru hafðar til hliðsjónar til að greina breytingar. Meðal breytinga sem greina má nú varða óreglulega fólksflutninga. Mat á þeirri ógn hefur breyst og engin þekkt tilfelli eru um að hryðjuverkamenn hafi nýtt sér með skipulögðum hætti flóttamannastrauminn til að komast til Evrópu.