Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi máli Stjörnunnar ehf. og Sjöstjörnunnar ehf. gegn þrotabúi EK1923 ehf., sem áður hét Eggert Kristjánsson hf., heildverzlun.
Fyrri eigandi EK1923 er afhafnamaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, jafnan kenndur við Subway.
Í málinu var þess krafist að tilkynningu um skiptalok þrotabúsins yrði hafnað og að lagt yrði fyrir skiptastjóra að boða að nýju til skiptafundar.
Með úrskurði héraðsdóms árið 2016 var bú EK1923 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Sama dag var Sveinn Andri Sveinsson lögmaður skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Á skiptafundi í desember í fyrra lagði skiptastjóri fram frumvarp að úthlutunargerð sem sætti ekki andmælum af hálfu kröfuhafa. Frumvarpið var því samþykkt og skiptastjóri sendi dóminum tilkynningu um skiptalok, að því er segir í úrskurðinum, sem var kveðinn upp í gær.
Sóknaraðilar byggðu kröfur sínar á því að skilyrðin til að ljúka skiptunum eins og gert var hafi ekki verið fyrir hendi þar sem ekki hafi verið leidd til lykta öll ágreiningsmál. Auk þess byggðu þeir kröfur sínar á því að skiptastjóri hafi ekki auglýst síðasta skiptafund með lögmætum hætti.
Fram kemur í niðurstöðu að skiptum á þrotabúi EK1923 ehf. sé lokið. Auglýsing þess efnis hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu og tilkynning um skiptalok send dóminum. Ekki sé ágreiningur í málinu um að skiptastjóri hafi greitt kröfur samkvæmt úthlutunargerðinni og fyrir liggi að félagið hafi verið afskráð úr hlutafélagaskrá. „Af framangreindu leiðir að þrotabúið brestur hæfi með lögum til að vera aðili að máli fyrir dómstólum og ber af þeim sökum að vísa málinu frá dómi," segir í niðurstöðu héraðsdóms. „Jafnvel þótt litið verði svo á að kröfu sóknaraðila sé beint að skiptastjóra en ekki þrotabúinu breytir það ekki þessari niðurstöðu.“