Máli Jóns Baldvins vísað aftur frá héraðsdómi

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/RAX

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur vísað frá ákæru á hend­ur Jóni Bald­vini Hanni­bals­syni fyr­ir meint kyn­ferðis­brot frá dómi öðru sinni. Mál­inu var fyrst vísað frá dómi 7. janú­ar en Lands­rétt­ur ómerkti þann úr­sk­urð og vísaði mál­inu aft­ur til héraðsdóms til meðferðar.

Héraðsdóm­ur komst að sömu niður­stöðu og áður en embætti héraðssak­sókn­ara hef­ur nú þegar kært úr­sk­urðinn til Lands­rétt­ar.

Car­men Jó­hanns­dótt­ir kærði Jón Bald­vin fyr­ir kyn­ferðis­brot en hún sagði ráðherr­ann fyr­ver­andi hafa strokið henni utan­k­læða og niður eft­ir rassi henn­ar þegar hún var gest­kom­andi á heim­ili hans á Spáni fyr­ir þrem­ur árum.

Mál ákæru­valds­ins byggðist á því að meint hátt­semi Jóns Bald­vins væri refsi­verð sam­kvæmt spænsku laga­ákvæði og það ákvæði sé sam­bæri­legt ákvæði í ís­lensk­um hegn­ing­ar­lög­um.

Dóm­ur­inn féllst ekki á að laga­ákvæðin væru sam­bæri­leg og taldi ákæru­valdið ekki hafa sýnt fram á það. Ákæru­valdið gat að mati dóms­ins ekki sýnt fram á dæmi úr spænskri dóma­fram­kvæmd þar sem dæmt var fyr­ir svipuð máls­at­vik og þau sem ákært var fyr­ir í máli Jóns Bald­vins.

Þá lá ekki fyr­ir gild yf­ir­lýs­ing frá spænsk­um yf­ir­völd­um með staðfest­ingu á því að hátt­sem­in í ákæru sé refsi­verð sam­kvæmt spænsk­um lög­um.

Ákærða beri að njóta vaf­ans

„Að mati dóms­ins er úti­lokað eða a.m.k. veru­leg­ur vafi á því að spænska laga­grein­in eigi við um hátt­sem­ina sem ákærða er gef­in að sök. Þótt þessi ann­marki kunni að varða efn­is­hlið máls­ins þykir hann einnig varða grund­völl ákær­unn­ar þannig að varðað geti frá­vís­un. Þar sem ekki ligg­ur fyr­ir gild yf­ir­lýs­ing frá þar til bær­um spænsk­um yf­ir­völd­um um að hátt­sem­in sem í ákæru grein­ir sé refsi­verð eft­ir spænsk­um lög­um og þar sem laga­grein­in sem byggt er á að þessu leyti get­ur tæp­ast átt við um hátt­sem­ina sem í ákæru grein­ir er það mat dóms­ins að ákærða beri að njóta vaf­ans um þetta og beri því að taka kröfu hans til greina og vísa mál­inu frá dómi,“ seg­ir í dómsorði.

Rík­is­sjóði var gert að greiða mál­svarn­ar­laun verj­anda Jóns Bald­vins, Vil­hjáms Hans Vil­hjálms­son­ar, að fjár­hæð 988.280 krón­ur.

Upp­fært kl. 10:51: Úrsk­urður héraðsdóms hef­ur verið kærður til Lands­rétt­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert