Verið var að ryðja veginn að neðra húsinu á Brúnastöðum í Fljótum þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is áttu leið hjá í hádeginu í dag. Jarðarför er í sveitinni á laugardaginn og þarf að ryðja að bæjunum svo fólk komist.
Mikið snjóaði í Fljótunum í síðustu viku og eins og sjá má á myndum ljósmyndara mbl.is náði snjórinn sums staðar mannshæð og rúmlega það.
Bændurnir á Brúnastöðum, Jóhannes Ríkharðsson og Stefanía Hjördís Leifsdóttir, hafa þó séð það verra og segjast hafa fengið mun meiri snjó í fyrra, þó þau útiloki ekki að snjórinn nú sé bara byrjunin á einhverju meira.
Stefanía Hjördís segir þau vera sátt á meðan snjór er, enda reki þau vetrarferðaþjónustu, en að stundum geti hann orðið helst til mikill. Jóhannes segir að þau hafi varla séð út um gluggana á bænum í tvo mánuði vegna snjóskafla síðasta vetur.
Börnin sem búa á bænum eru ánægð með þennan mikla snjó enda mikið vetraríþróttafólk. Hins vegar hefur þessi mikli snjór stundum einnig áhrif á skólahaldið, og í síðustu viku voru nokkrir dagar þar sem börnin komust ekki í skólann. Stefanía Hjördís segir það lítið miðað við í fyrravetur þegar þau komust ekki í skólann vikum saman, auk þess sem nú sé börnunum boðið upp á fjarkennslu sem hafi komið til vegna kórónuveirufaraldursins.