Meint lögbrot á bóluefnafundi á borði lögreglu

Bóluefni kom til landsins 28. desember.
Bóluefni kom til landsins 28. desember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meint brot á sóttvarnalögum á blaðamannafundinum þar sem bóluefnið frá Pfizer var kynnt hér á landi er til skoðunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Frumathugun er í gangi hjá lögreglunni í Hafnarfirði sem fer með forræði málsins þar sem bóluefnið var kynnt í húsakynnum Distica í Hörgártúni í Garðabæ.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn mbl.is til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um málið.

Heilbrigðisráðuneytið boðaði fundinn.

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis og Rögnvaldar Ólafssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, eftir fundinn að of margir hafi verið inni í fréttamannahólfi miðað við þágildandi sóttvarnarreglur.

Fyrirspurn mbl.is 

Í fyrirspurn mbl.is var spurt hvort ástæða þætti til að rannsaka málið og hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla svo sóttvarnarbrot væru rannsökuð yfir höfuð. Spurningarnar voru eftirfarandi:

1. Hvað ræður því hvaða mál eru rannsökuð og hvaða mál eru ekki rannsökuð þegar kemur að meintum sóttvarnarbrotum?
2. Í frétt mbl.is þar sem m.a. er vitnað til fulltrúa almannavarna sem talaði um að of margir hafi verið inni í rýminu í húsakynnum Distica í Hörgártúni í Garðabæ. Er jafnframt sýnd mynd af því af því sem virðist vera of margir inni í fjölmiðlarými miðað við sóttvarnarreglur. Flokkast þetta ekki sem tilkynning um meint sóttvarnarbrot?
3. Ef ekki hvað flokkast sem tilkynning um sóttvarnarbrot?
4. Stendur til að rannsaka þetta mál? 

Þeir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir og Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra …
Þeir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir og Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra töldu of marga hafa verið í fréttamannahólfinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málið til skoðunar hjá lögreglu 

Í skriflegu svari frá Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra á ákærusviði lögreglunnar, segir:

„Samkvæmt lögum um meðferð sakamála skal lögregla hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Frétt í fjölmiðlum flokkast ekki sem tilkynning til lögreglu um brot en á hinn bóginn kann fréttaflutningur að leiða til þess að lögregla sjái ástæðu til að kanna málið frekar og eftir atvikum hefja rannsókn. Tilkynningar um ætluð brot geta borist eftir ýmsum leiðum til lögreglu t.d. með því að menn koma á lögreglustöð til að tilkynna um brot eða kæra það, tilkynning berst símleiðis, með bréfi eða í tölvupósti og með einkaskilaboðum í gegnum samskiptamiðla sem lögregla notar. Ætlað sóttvarnabrot sem spurt er um er til skoðunar hjá lögreglu í samræmi við framangreint,“ segir Hulda Elsa. Til áréttingar sagði hún að málið væri í frumathugun hjá lögreglunni í Hafnarfirði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert