Harry Kamian er nýr staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hann tók við störfum sem slíkur á sunnudag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandaríska sendiráðinu.
Síðast starfaði Kamian sem sendiráðunautur og varafastafulltrúi Bandaríkjanna gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Fyrst sem staðgengill en síðar sem starfandi fastafulltrúi.
Áður starfaði hann sem aðstoðarframkvæmdarstjóri á skrifstofu yfirstjórnar bandaríska utanríkisráðuneytisins. Á árunum 2015-2017 starfaði hann með sendiherrum við að móta og hrinda í framkvæmd heimsóknum utanríkisráðherra til annarra landa til að framfylgja utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Þar áður sem deildarstjóri og aðstoðardeildarstjóri á aðgerðasviði utanríkisráðuneytisins, sem er sólarhringsvöktun ráðuneytisins.
Kamian á að baki 28 ára starfsferil í utanríkisstarfi fyrir bandarísk yfirvöld. Hann er með meistaragráður í utanríkisþjónustu frá Georgetown-háskóla og B.A. gráðu í alþjóðasamskiptum og spænsku frá Kaliforníuháskóla í Davis.
Hann er kvæntur Robin Dunnigan, sem einnig starfar í utanríkisþjónustu Bandaríkjanna og saman eiga þau tvö börn.
Kamian tekur við sendiráðinu á Íslandi eftir að Jeffrey Ross Gunter lét af störfum sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi fyrr í þessum mánuði. Gunter rataði nokkrum sinnum í fjölmiðla á Íslandi á því eina og hálfa ári sem hann starfaði sem sendiherra hér á landi og sakaði Fréttablaðið meðal annars um falsfréttaflutning.