Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, hefur sagt starfi sínu lausu. Þetta tilkynnti hann stjórn Landsbjargar á þriðjudag síðastliðinn og svo félagsmönnum félagsins nú í kvöld, en þeir eru nokkur þúsund talsins.
Jón segir í samtali við mbl.is að hann skilji við Landsbjörg í góðu og sé stoltur af átta ára starfi sínu sem framkvæmdastjóri.
„Ég er búinn að vera hérna í átta ár og mér fannst þetta því góður tímapunktur til þess að fara og prófa eitthvað annað,“ segir Jón spurður ástæðu uppsagnarinnar.
„Það hafa verið forréttindi í alla staði að vinna með fólkinu sem ég hef fengið tækifæri að vinna með. Ég á minn bakgrunn í starfinu eins og margir, var í stjórn félagsins í rúmt ár áður en ég tók við sem framkvæmdastjóri í byrjun árs 2013.“
Jón er þó ekki enn hættur sem framkvæmdastjóri og segist vera í góðu samtali við stjórn Landsbjargar um hvaða dagsetning henti best. Hvað taki nú við segist Jón þó ekki vita.
„Nei, ég hef ekkert ákveðið um það. Ég er hvergi búinn að sækja um.“