„Þetta voru mörg hundruð rúmmetrar af snjó,“ segir Rúnar Skarphéðinn Símonarson við blaðamann mbl.is á Hofsósi í hádeginu. Rúnar er einn þeirra sem unnið hefur að því að koma miklu magni af snjó í sjóinn en snjóflóðahætta skapaðist vegna stórrar sprungu sem myndaðist í snjóhengju fyrir ofan hafnarsvæðið í þorpinu.
Rúnar segir að unnið hafi verið að því frá hádegi í gær að losa um snjóhengjuna og afstýra snjóflóðahættu en í morgun hafi áfram verið haldið að losa snjóinn.
„Sprungan var rosalega djúp,“ segir Rúnar. Hann segir vinnumenn hafa farið heim í gærkvöldi þegar hættuástandi var aflýst.
Guðrún Þorvaldsdóttir, ein þeirra sem rekur Vesturfarasetrið við höfnina í þorpinu, segist einu sinni áður hafa lent í viðlíka snjó og að hann safnist í skafla í norðaustanáttinni.
Rúnar segir þjóðsögu á þá leið að fyrr á tímum hafi krakkar í þorpinu einfaldlega hoppað ofan á svipuðum snjóhengjum og þannig forðað snjóflóðum. Hann bætti við að það væri vitanlega stórhættulegt og yrði ekki vel liðið í dag.
Ungur björgunarsveitarmaður á svæðinu, sem vildi ekki láta nafns síns getið, staðfesti söguna við blaðamann og viðurkenndi að hann og vinir hans hafi stundað þetta á árum áður. Þeir hafi hoppað á hengjunum, búið til sprungu, farið ofan í hana, spyrnt og dottið niður með henni.
Rúnar segir óljóst hversu mikill snjór verði hreinsaður í dag en ljóst sé að ef veðrið verður svipað og um síðustu helgi fari öll húsin á hafnarsvæðinu í kaf.