Hönnun er hafin á öðrum áfanga Stapaskóla, sem er staðsettur í Innri-Njarðvík. Í byrjun haustannar 2020 flutti skólinn í fyrsta áfanga byggingarinnar, en áður hafði hann starfað í bráðabirgðahúsnæði í um tvö ár.
Annar áfangi byggingarinnar snýr að hönnun og byggingu á fullbúnu keppnishúsi fyrir íþróttir, 25 metra sundlaug, vaðlaugum fyrir börn og útipottasvæði.
„Eftir að fyrsta áfanga byggingarinnar var lokið og við orðin klár í annan áfanga var þeirri spurningu varpað fram á bæjarráðsfundi hvort við ættum ekki að slá tvær flugur í einu höggi og nýta tækifærið til að reisa húsnæði sem hægt væri að nota fyrir íþróttakappleiki. Mikil vöntun hefur verið á slíku húsnæði á svæðinu og þetta er því afar kærkomið tækifæri,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, í tilkynningu.
Töluverð breyting hefur orðið á hönnun annars áfanga. Upphaflega var gert ráð fyrir íþróttahúsnæði sem eingöngu væri ætlað kennslu og átti þar að vera nokkuð minni sundlaug, eða 16,6 metrar. Með tilkomu breytinganna stækkar mannvirkið úr um 2.900 fermetrum í 5.000 fermetra.
Gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir 800 til 1.200 áhorfendur, meistaraflokksklefum, æfingaaðstöðu og salernum. Þá var einnig horft til samnýtingar rýma, hvort sem það er skólahúsnæðið sem nýtir sér íþróttasalinn eða að íþróttasalurinn nýti sér samliggjandi rými. Ákvörðunin um breytinguna var tekin af byggingarnefnd Stapaskóla, sem skipuð er fulltrúum bæjarráðs Reykjanesbæjar.