22 stiga frost í nótt

Á flugvellinum á Akureyri mældist 22 stiga frost í nótt …
Á flugvellinum á Akureyri mældist 22 stiga frost í nótt en 15 stiga frost inni í bænum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Það hefur verið hægur vindur á landinu í nótt og víða léttskýjað að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

„Við þessar aðstæður um miðjan vetur sjást oft og tíðum háar frosttölur á mælum. Það er gjarnan mikill breytileiki í því hvernig frostið nær sér á strik. Oft verður kaldast í lægðum í landslagi, þar situr kaldasta loftið sem fastast og kólnar meira og meira af völdum útgeislunar.

Í nótt var kaldast við Mývatn (veðurstöðin stendur á Neslandatanga), þar var frostið á bilinu 22-25 stig í logni. Um 11 km í loftlínu í vestur frá Mývatnsstöðinni stendur veðurstöðin Mývatnsheiði. Þar var frostið í nótt lengst af 16-17 stig og vindhraði um 4 m/s (gola skv. gamla vindstigakvarðanum). Veðurstöðin á Mývatnsheiði stendur á heiðarbungunni og þar á kalda loftið erfitt með að standa kyrrt og því eru ekki kjöraðstæður þar fyrir neðsta lagið að kólna af völdum útgeislunar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings í morgun.

Klukkan þrjú í nótt var 22 stiga frost á flugvellinum á Akureyri en á sama tíma mældist 15 stiga frost við lögreglustöðina inni í bænum. 

Næstu daga er útlit fyrir tiltölulega rólegt veður á landinu og áfram verður kalt.

Veðurhorfur fyrir næstu daga

Hægviðri og víða léttskýjað. Norðlæg eða breytileg átt 3-10 síðdegis og dálítil snjómugga á köflum, en úrkomulaust sunnanlands.

Norðaustlæg átt 5-13 á morgun og lítils háttar él á víð og dreif, en þurrt vestanlands.

Frost víða á bilinu 3 til 13 stig, en kaldara á stöku stað.

Á laugardag:

Norðlæg átt 3-10 m/s og dálítil él, en léttskýjað suðvestan- og vestanlands. Frost 1 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.

Á sunnudag og mánudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt en austan 8-13 með suðurströndinni. Víða bjartviðri og frost 2 til 15 stig, kaldast í innsveitum á Norður- og Austurlandi.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Austan 5-10, en 10-15 syðst á landinu. Dálítil él um landið suðaustanvert, hiti kringum frostmark. Bjartviðri norðan- og vestanlands og frost 2 til 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert