Tuttugu og þremur einstaklingum hafa verið greiddar bætur vegna mistaka við að afmá nöfn einstaklinga og aðrar persónuupplýsingar við birtingu skýrslu sem unnin var af lögreglu um búsáhaldabyltinguna.
Þetta kemur fram í svari ríkislögmanns við fyrirspurn Fréttablaðsins. Um er að ræða miskabætur að fjárhæð á bilinu 150.000 til 500.000 krónur sem hverjum og einum voru greiddar. Heildarfjárhæð bóta nam 7.460.000 krónum, auk 1.925.100 króna sem greiddar voru í lögfræðikostnað vegna málsins.
Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, vann að gerð skýrslunnar, „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“, en hann var beðinn um að skrá niður á einn stað allar upplýsingar varðandi mótmælin sem brutust út eftir bankahrunið 2008.