Ákvæði um starfsreynslu ekki tímabært

Linda Björk Markúsardóttir (efri mynd til vinstri), Kristín María Gísladóttir …
Linda Björk Markúsardóttir (efri mynd til vinstri), Kristín María Gísladóttir (neðri mynd) og María Heimisdóttir. Ljósmynd/Samsett

Félag talmeinafræðinga á Íslandi segir að ákvæði í rammasamningi frá árinu 2017 um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga áður en þeir komast á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands hafi verið sett inn í samninginn þrátt fyrir að stjórn félagsins hafi bent á að það væri alls ekki tímabært.

Þetta kemur fram í svari félagsins vegna ummæla forstjóra SÍ, Maríu Heimisdóttur, í viðtali við mbl.is fyrr í vikunni.

„Árið 2017 áttu sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar í samningaviðræðum við SÍ og ræddu meðal annars faglegar gæðakröfur og niðurstaða þess varð að tveggja ára ákvæðið kæmi inn í samninginn þrátt fyrir að stjórn félagsins benti á að það væri alls ekki tímabært, í ljósi þess að biðlistar væru of langir og of fáir talmeinafræðingar væru á samningi við SÍ. Nú hafa fjögur ár liðið, hömlur þessa ákvæðis hafa bersýnilega komið í ljós og allt það sem reynt var að benda á í upphafi hefur raungerst,“ segir í svarinu.

„Auk þess að hamla atvinnufrelsi talmeinafræðinga hefur ákvæðið grafalvarleg áhrif á þá sem þurfa á þjónustu stéttarinnar að halda. Rannsóknir sýna að snemmtæk íhlutun skilar langsamlega bestum árangri. Ef ekkert er að gert í lengri tíma, kemur það niður á framtíð einstaklinganna sem eiga í hlut, hvort sem það eru börn með tal- eða málþroskafrávik eða fólk sem hlotið hefur heilaskaða,“ segir þar einnig.

Fram kemur að SÍ hindri nýliðun hjá talmeinafræðingum og skerði um leið heilbrigðisþjónustu í landinu. „Með þessari hindrun kemur SÍ í veg fyrir að hægt sé að halda talmeinastofum opnum þegar talmeinafræðingar komast á aldur líkt og er nú að gerast á Talstöðinni í Kópavogi. Þar eru 350 börn á biðlista. Ákvæðið kemur einnig í veg fyrir að talmeinafræðingar í minni bæjarfélögum, sem oft eru einyrkjar, geti fengið liðsauka. Þeir hlaupa því eins hratt og þeir geta í hamstrahjólinu uns eitthvað gefur sig,“ segir í svarinu.

Hér má lesa svarið í heild sinni:

„Þann 27. janúar síðastliðinn lýsti María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), því yfir að 180 milljónir þurfi að bætast við fjárframlög til talmeinaþjónustu til að hægt sé að fella á brott hamlandi skerðingarákvæði í rammasamningi milli sjálfsætt starfandi talmeinafræðinga og SÍ. Frá 2017 hefur verið kveðið á um það í rammasamningi að talmeinafræðingar verði að hafa tveggja ára starfsreynslu áður en þeir komast á samning hjá SÍ. Lagalega gerir landlæknir þær kröfur að talmeinafræðingar séu undir handleiðslu reyndari talmeinafræðings í sex mánuði að meistaranámi loknu og er það forsenda þess að þeir fái útgefið starfsleyfi frá landlæknisembættinu. Tveggja ára ákvæðið er því í raun tveggja og hálfs árs ákvæði og SÍ gerir kröfur umfram þær sem landlæknir gerir til stéttarinnar án þess að færa fyrir því haldbær eða fagleg rök.

Árið 2017 áttu sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar í samningaviðræðum við SÍ og ræddu meðal annars faglegar gæðakröfur og niðurstaða þess varð að tveggja ára ákvæðið kæmi inn í samninginn þrátt fyrir að stjórn félagsins benti á að það væri alls ekki tímabært, í ljósi þess að biðlistar væru of langir og of fáir talmeinafræðingar væru á samningi við SÍ. Nú hafa fjögur ár liðið, hömlur þessa ákvæðis hafa bersýnilega komið í ljós og allt það sem reynt var að benda á í upphafi hefur raungerst. Auk þess að hamla atvinnufrelsi talmeinafræðinga hefur ákvæðið grafalvarleg áhrif á þá sem þurfa á þjónustu stéttarinnar að halda. Rannsóknir sýna að snemmtæk íhlutun skilar langsamlega bestum árangri. Ef ekkert er að gert í lengri tíma, kemur það niður á framtíð einstaklinganna sem eiga í hlut, hvort sem það eru börn með tal- eða málþroskafrávik eða fólk sem hlotið hefur heilaskaða.

Þegar vikið er að ummælum Maríu um fjölda þeirra talmeinafræðinga sem myndu sækjast eftir samningi og þeim upphæðum sem hún nefnir í því samhengi er gott að glöggva sig betur á þeim tölum. Dæmið er um það bil svona:

Talmeinafræðingur í fullu starfi hittir um 35 börn á viku og fær u.þ.b. 350.000 kr. frá SÍ fyrir þá vinnu. Ef gert er ráð fyrir eðlilegum forföllum og fríum fær hann því greiddar um 12.000.000 kr. árlega í verktakagreiðslum. Til að ná upp í 180 milljónirnar hennar Maríu þyrftu 15 talmeinafræðingar að fá samning við SÍ á þessu ári. Þessir talmeinafræðingar eru ekki tiltækir á vinnumarkaðnum og því gæti þessi staða aldrei komið upp. María gerir jafnframt ráð fyrir því að þeir talmeinafræðingar sem myndu sækjast eftir að komast að á samningi hjá SÍ færu í 100% starf. Miðað við hlutfall þeirra sem sinna nú 100% starfi samningsbundir SÍ verður það að teljast harla ólíklegt. Talmeinafræðingar vinna flestir bæði verktakavinnu fyrir ríki og sveitafélag og/eða eru launamenn hjá stofnunum og sveitarfélögum þar sem svo fámennri stétt þarf að smyrja þunnt á sem flesta staði.

Við sem stétt erum einungis að benda á þá staðreynd að með því að hindra nýliðun á þennan hátt skerðir SÍ heilbrigðisþjónustu í landinu. Með þessari hindrun kemur SÍ í veg fyrir að hægt sé að halda talmeinastofum opnum þegar talmeinafræðingar komast á aldur líkt og er nú að gerast á Talstöðinni í Kópavogi. Þar eru 350 börn eru á biðlista. Ákvæðið kemur einnig í veg fyrir að talmeinafræðingar í minni bæjarfélögum, sem oft eru einyrkjar, geti fengið liðsauka. Þeir hlaupa því eins hratt og þeir geta í hamstrahjólinu uns eitthvað gefur sig. Líklega verður það talmeinafræðingurinn sjálfur þar sem álagið er oft ómanneskjulegt þegar börn og fullorðnir sem bíða eftir þjónustu hlaupa á hundruðum. . Þetta snýst ekki um aukin fjárútlát til málaflokksins heldur fjárfestingu til framtíðar. Ákvæðið stangast á við stefnu barnamálaráðherra um að barnið eigi að vera hjarta kerfisins, það stangast á við heilbrigðisstefnuna sem gefin er út af heilbrigðisráðherra og er í ósamræmi við lög um réttindi sjúklinga. Í 3.gr þeirra laga segir: Sjúklingur á rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á.

Við álítum sem svo að talmeinafræðingar þessa lands hafi betri þekkingu á tal- og málmeinum, og rétt tímasettum meðferðum við þeim, en fjárhirsluverðir Sjúkratrygginga Íslands.Kerfi sem hefði hjarta ætti að taka ofangreind rök gild. En hvernig ber að eiga við stofnun sem skilur bara peninga, ekki manneskjur? Hvernig getur stefna stofnunar stutt það að aurinn sé sparaður en krónunni kastað út með rétti allra þeirra sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda? María, getur þú svarað því?

Fyrir hönd stjórnar Félags talmeinafræðinga á Íslandi, Kristín María Gísladóttir og Linda Björk Markúsardóttir“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka