Boða 90 ára og eldri í bólusetningu

Allir eru beðnir um að mæta með skilríki.
Allir eru beðnir um að mæta með skilríki. AFP

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu býður öllum íbúum svæðisins 90 ára og eldri, þ.e. þeim sem fæddir eru árið 1931 eða fyrr, bólusetningu við kórónuveirunni að Suðurlandsbraut 34 á þriðjudag.

Frá þessu greinir heilsugæslan í tilkynningu. Segir þar að boð um bólusetninguna verði send með SMS-skilaboðum og að fólk sé beðið um að fylgja þeirri tímasetningu sem þar er tilgreind.

„Þeir sem eru á þessum aldri en hafa ekki fengið SMS skilaboð geta komið á Suðurlandsbraut 34, milli kl. 9:00 og 15:00 sama dag og fengið bólusetningu,“ segir í tilkynningunni.

Gott að vera í stuttermabol

Allir eru beðnir um að mæta með skilríki auk þess sem minnt er á grímuskyldu.

„Bólusett er í axlarvöðva og í almennu rými. Því biðjum við fólk um að koma klætt þannig að auðvelt sé að ná í stungustaðinn. Gott er að vera í stuttermabol innst klæða.“

Bent er á að allir þurfi að bíða í 15 mínútur eftir að bólusetning er gefin.

„Hafi fólk bráðaofnæmi er ekki ráðlegt að bólusetja það. Þeir sem ekki þiggja bólusetningu eru beðnir um að láta vita á bolusetning@heilsugaeslan.is  eða i síma 513-5000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert