Lyfjastofnun hefur veitt bóluefninu „Covid-19 Vaccine AstraZeneca“ skilyrt íslenskt markaðsleyfi. Bóluefnið ver einstaklinga gegn Covid-19 og er ætlað til notkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri.
Markaðsleyfið byggir á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en leyfisveiting hennar byggir á meðmælum Lyfjastofnunar Evrópu. Meðmælin og markaðsleyfi framkvæmdastjórnarinnar birtust fyrr í dag, að því er kemur fram í tilkynningu.
Um er að ræða þriðja bóluefnið gegn Covid-19 sem hlýtur markaðsleyfi hérlendis. Áður hafa verið samþykkt bóluefnin Comirnaty frá BioNTech/Pfizer og Covid-19 Vaccine Moderna.
Yfirlestur á íslenskum þýðingum fylgiseðils og samantektar á eiginleikum lyfs stendur yfir hjá Lyfjastofnun og verða íslenskir textar birtir um leið og þeir eru endanlegir. Sérstök upplýsingasíða um bóluefnið verður einnig birt von bráðar á vef Lyfjastofnunar, segir einnig í tilkynningunni.