Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, segir að 16 ára dómur sem Arturas Leimontas fékk í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir að verða Egidijus Buzleis að bana í Úlfarsárdal í desember 2019 sé eftir væntingum.
„Þetta er í samræmi með það sem lagt var upp með,“ segir Kolbrún. Að sögn hennar snérist sönnurbyrðin um það að færa sönnur á að Leimontas hefði með afli hent Buzleis fram að svölum íbúðar í Úlfarsárdal.
Fram kemur í dómnum að lögregla hafi notast við verkfræðinga til þess að reyna að endurskapa atvikið. Var þeim gert að leggja mat á atvikið. „Voru gerðar átta tilraunir til að líkja eftir fallinu með gínu sem var að sömu stærð og þunga og brotaþoli. Í ljós kom að væri gínunni velt fram af svölunum komst hún ekki þá vegalengd sem um er að ræða og var því talið útilokað að brotaþoli hefði fallið eða oltið fram af svölunum. Áverkar á brotaþola bentu til þess að hann hefði ekki verið viðbúinn og ekki virtust vera varnaráverkar á honum. Við athugunina kom í ljós að hægt var að kasta manni þessa vegalengd og ná fram sambærilegri lendingu,“ segir í dómnum.
Þá var gerð hreyfifræðileg greining á falli brotaþola. Komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að fall af sjálfsdáðum væri ólíklegt.
Þá sögðu vitni í íbúðinni að til átaka hafi komið milli þeirra Buzleis og Leimontas áður en Buzleis lést.
Að sögn Kolbrúnar hefur verjandi Leimontas þegar sagt að málinu verði áfrýjað.