Enn er verið að kanna grundvöll kæru sem vísað var til lögreglunnar á Vestfjörðum um meint samráð Seðlabanka Íslands og Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitar sem gerð var í húsakynnum Samherja hf. í mars árið 2012.
Enginn hefur réttarstöðu sakbornings og engar yfirheyrslur hafa farið fram tæpum tveimur árum eftir að kæra í málinu var fyrst lögð fram.
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, vísaði málinu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í september árið 2019, á grundvelli upplýsinga sem umboðsmaður Alþingis hafði um meint samráð SÍ og RÚV.
Grunur lék á um að gagnaleki hafi átt sér stað, úr Seðlabanka og til handa RÚV, vegna þess að Kastljós fjallaði um húsleit SÍ hjá Samherja sama dag og hún var gerð, þann 27. mars 2012.
Þegar lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lýsti sig vanhæfa til að rannsaka málið fól ríkissaksóknari lögreglunni á Vestfjörðum rannsókn málsins.
Í samtali við mbl.is segir lögreglufulltrúi lögreglunnar á Vestfjörðum að málið sé á borði lögreglunnar, en enn sé bara verið að kanna grundvöll fyrir rannsókn. Verið sé að afla gagna í málinu og sú vinna sé umtalsverð. Enginn hefur réttarstöðu sakbornings, sem fyrr segir, og enginn hefur verið yfirheyrður vegna málsins.
Er þá að skilja að eiginleg rannsókn sé ekki hafin?
„Það er auðvitað liður í rannsókn að afla gagna. En sem stendur er bara verið að kanna grundvöll fyrir rannsókn, enginn hefur réttarstöðu sakbornings og engar yfirheyrslur hafa farið fram,“ sagði fulltrúi lögreglu.
Í gær var greint frá því á mbl.is að Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, hafi sent ríkissaksóknara erindi þar sem hann bendir á aðgerðarleysi lögreglunnar á Vestfjörðum. Garðar staðfesti að honum hafi borist svar um að hreyfing væri á málinu, síðast í desember, en það fékkst ekki nánar útskýrt.