Íbúar Seyðisfjarðar Austfirðingar ársins

Seyðfirðingar taka á móti viðurkenningunni.
Seyðfirðingar taka á móti viðurkenningunni.

Íbúar Seyðisfjarðar hafa verið valdir Austfirðingar ársins 2020 af lesendum Austurfréttar. Heiðurinn hljóta þeir fyrir samhug, samheldni og skjót viðbrögð í skriðuföllunum og rýmingu bæjarins í desember.

Þetta kemur fram á vef Austurfréttar en lesendur miðilsins völdu Austfirðing ársins. 

Klapp á bakið 

„Þessi samhugur og samorka hafa sýnt sig í þeim hamförðum sem gengið hafa yfir. Hvert sem maður snýr sér er jákvæðni og hugur í fólki. Það er lítið um bugun og þegar hún kemur upp stíga allir til og aðstoða. Það er gaman að fá klapp á bakið og mér finnst Seyðfirðingar eiga það skilið,“ segir Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs í samtali við Austurfrétt. 

Þar segir að Davíð hafi verið í hópi björgunarsveitarfólks, sjálfboðaliða Rauða krossins og heimastjórnar Seyðisfjarðar sem tóku við viðurkenningunni í Herðubreið í gærkvöldi. Þar hittast Seyðfirðingar og borða saman á fimmtudagskvöldum.

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurgluggans tók einnig til máls við afheninguna. 

„Við óskuðum eftir tilnefningum frá lesendum og snemma var stungið upp á einstaklingum sem staðið höfðu í eldlínunni hér á Seyðisfirði. Ég var farinn að óttast harða samkeppni og vinslit í stjórnstöðinni þegar þessi ágæta tillaga kom um Seyðfirðinga alla. Það var síðan gott þegar hún varð ofan á.

Málið vandaðist hins vegar við að afhenda verðlaunin, það er erfitt að verðlauna heilt bæjarfélag. Við höfum vanalega gefið Austfirðingi ársins fría áskrift í ár að Austurglugganum. Að þessu sinni ákváðum við að láta andvirði áskriftarinnar renna í söfnun til styrktar Seyðfirðingum. Ég veit að upphæðin er ekki há en hún er táknræn. Að auki afhentum við viðurkenningarskjal sem Seyðfirðingar koma upp á góðum stað,“ sagði Gunnar á vef Austurfréttar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert