Landsréttur hefur þyngt dóm yfir Hafþóri Loga Hlynssyni, sem fundinn var sekur um peningaþvætti í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember 2018. Sá refsidómur var sá tólfti sem Hafþór hafði hlotið síðan í desember árið 2003, en hann er fæddur árið 1987.
Dómur í málinu var kveðinn upp í réttinum í dag, en ríkissaksóknari hafði áfrýjað málinu og ákæruvaldið krafist þess að refsing Hafþórs yrði þyngd.
Hafþór var handtekinn í maí árið 2017 og í framhaldinu gerð leit á heimili hans. Fann lögreglan þá 1,8 milljónir undir rúmdýnu, en Hafþór sagðist hafa tekið þá upphæð úr banka því hann skuldaði bankanum. Þá fundust einnig talsverðir fjármunir í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu á heimili hans sem og á honum sjálfum.
Dómurinn laut einnig að innflutningi Teslu-bifreiðar frá Litháen. Hafði Hafþór fengið greiðslu frá tryggingafélagi fyrir Audi-bifreið sem hafði skemmst auk þess sem hann sagðist hafa fengið lán. Lét hann félaga sinn, sem einnig var ákærður og dæmdur í málinu í héraðsdómi, fá upphæðina og skipti hann fénu í evrur og var greitt fyrir bifreiðina með reiðufé í Litháen.
Í dómi réttarins segir að Hafþór sé sakfelldur fyrir að hafa um nokkurt skeið aflað sér ávinnings með refsiverðum brotum. Hann hafi ekki gefið trúverðugar skýringar á misræmi í útstreymi fjár af reikningum og skráðum tekjum á sama tímabii.
Talið var hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hefði á umræddum tíma aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum.
Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og upptöku fyrrnefndra fjármuna og bifreiðarinnar staðfest.
Fangelsisdómur Hafþórs var aftur á móti þyngdur, eins og áður sagði. Héraðsdómur hafði kveðið á um tólf mánaða fangelsi en Landsréttur ákveður að hann skuli sæta fangelsi í tuttugu mánuði.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot hans voru hegningarauki við þrjá eldri dóma. Var einn þeirra skilorðsdómur sem var tekinn upp og dæmdur með málinu.
Hafþór Logi var einnig dæmdur til tuttugu mánaða fangelsisvistar í janúar árið 2019, þá fyrir aðild sína að gagnaversmálinu, en hann tilheyrði hinu svokallaða föruneyti, sem var nafn sem glæpamennirnir völdu með vísun í Hringadróttinssögu.