Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á banaslysi sem varð í Skötufirði fyrr í mánuðinum er langt komin. Þetta staðfestist í samtali mbl.is við fulltrúa lögreglu. Þrjú voru í bíl sem hafnaði úti í sjó vestan megin í Skötufirði. Tvö létust, kona og sonur hennar en fjölskyldufaðirinn, Tomasz Majewski, komst lífs af.
Samkvæmt lögreglu á eftir að rannsaka bílinn og getur það tekið töluverðan tíma. Þó er ekkert sem bendir til þess að neitt saknæmt hafi átt sér stað.
Nafn drengsins sem lést er Mikolaj Majewski og var hann á öðru ári er hann lést á Landspítalanum, þann 19. janúar síðastliðinn. Móðir hans, Kamila Majewska, lést þremur dögum fyrr, einnig á Landspítala. Fjölskyldan bjó á Flateyri og stofnuðu aðstandendur hennar söfnunarreikning til að styðja við bakið á Tomasz á erfiðum tímum.