Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur sent frá sér áskorun til formanna stjórnmálaflokka um að þeir sammælist um skýrar reglur sem útiloka ofbeldisfull og meiðandi ummæli í aðdraganda næstu alþingiskosninga.
Hún segir árásir á stjórnmálafólk og höfuðstöðvar stjórnmálaflokka vera sterka áminningu til allra sem taka þátt í opinberri umræðu um að sýna ábyrgð, aðgát og mannvirðingu.
„Við sem störfum í stjórnmálum verðum að standa saman gegn þessari vá. Öll berum við ábyrgð,“ segir Þorgerður Katrín og bætir síðar við: „Orðræða eða athafnir sem ýta undir ógn og ofbeldi gagnvart stjórnmálafólki, flokkum eða stofnunum er atlaga að dýrmætu frelsi og lýðræði.“
Fram kemur í áskoruninni að það að hræða fólk frá því að fylgja hugsjónum sínum og sannfæringu geri það sama. Fjölbreyttar raddir, sem ekki séu endilega alltaf sammála, séu mikilvægar lýðræðinu. Virðing gagnvart ólíkum sjónarmiðum og almenn háttvísi skipti að sama skapi miklu máli.
„Skýrar sameiginlegar línur og skilaboð af hálfu forystufólks í stjórnmálum um að hvers kyns ofbeldi verði ekki liðið, væri þýðingarmikil byrjun á kosningaári. Látum kosningarnar snúast um hugmyndir og málefni. Fyrir fólkið okkar. Það er mikið undir. Ég er til,“ segir Þorgerður Katrín.