Skrapp næstum til Kína í leit að súrefnisgrímum

John Snorri á K2 í fyrra.
John Snorri á K2 í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Við fórum upp í ABC og aðeins lengra, ég segi svona í gríni að við gengum þarna yfir hrygg og vorum komnir ansi nálægt landamærum Kína, að við höfum skroppið yfir til Kína í dag,“ segir John Snorri í samtali við mbl.is í dag. 

Hann segir þá félaga, sem nú eru staddir í grunnbúðum K2 eftir að hafa gert tilraun til að toppa fyrr í vikunni en þurftu að hætta við vegna veðurs, ekki hafa farið alla leið til Kína en nokkuð nálægt landamærunum. 

Tilgangurinn var að fara og leita að búnaði sem glataðist við að einn bakpoki þeirra fauk upp á þriðjudaginn, með þeim afleiðingum að hann fór fyrir klettabrún og splundraðist með mikilvægum búnaði.

„Við fundum grímu og þrýstijafnara sem hægt er að nota. Svo fáum við tvær grímur og þrýstijafnara í láni í viðbót. Svo þetta hefur allt gengið upp,“ segir John Snorri.

Stefna á að toppa í næstu viku

„Núna lítur fjórði og fimmti [febrúar] vel út, hvort að við reynum að toppa fjórða eða fimmta, mun bara fara eftir veðri,“ segir John Snorri.

John Snorri talaði við mbl.is frá grunnbúðunum og segir hann þær vera eins og heimili sitt á meðan K2 förinni stendur. „Allt dótið okkar er hér, allur maturinn okkar,“ segir John Snorri. 

Eftir grunnbúðirnar eru næstu búðir svokallaðar ABC búðir, eða Advanced Base Camp, við taka búðir eitt, tvö, þrjú og fjögur áður en komið er á topp K2.

John Snorri segir að hann og hans föruneyti muni fara öðruvísi leið og vera aðeins 3 daga á leiðinni upp og tvo á leiðinni niður þegar þeir gera atlögu næst í kring um 4. febrúar. 

„Við munum gista tvær nætur á leiðinni upp og eina á leiðinni niður. Þá ætlum við beint frá grunnbúðum og beint í búðir tvö í 6600 metra hæð. Þaðan beint í búðir 3 í 7200 metra hæð. Þá beint á toppinn, sleppum búðum fjögur. Við ætlum að vera 14 tíma á toppinn frá búðum þrjú og fimm tíma á leiðinni niður í búðir þrjú.“

John Snorri segir að þeir ætli sér sömu leið niður. Hann segir þá verða að gera þetta svona vegna þess að veðrið sé svo breytilegt að vetri til á K2. „Við erum að reikna með að toppa, þá gerum við ráð fyrir 40-43 gráðu frosti auk vindkælingar. Veðurfræðingur gerir ráð fyrir að með vinkælingu sé þetta 61-63 gráðu frost,“ segir John Snorri. 

„Tærnar og fingurnir eru það erfiðasta við frostið,“ segir John Snorri aðspurður að því hversu vel hann finni fyrir frostinu þegar það er yfir 60 gráður. Hann segir einn mannanna sem tókst að toppa K2 16. janúar muni að öllum líkindum missa tærnar og margir þeirra hafi verið frostbitnir á fingrunum.

Hættulegast að fara niður

„Ég er algjörlega tilbúinn og er búinn að taka rosalega góðar hæðaaðlaganir og bíð núna eftir færinu að komast á toppinn,“ segir John Snorri.

John Snorri segir hættulegast að fara niður K2. „Ég veit að konan mín á mikið erfiðara með það þegar hún veit að ég er á leiðinni niður. 80% dauðsfalla gerast á leiðinni niður,“ segir John Snorri.

„Það getur verið rosaleg þreyta, stundum einbeitingaskortur og ekki fylgst nógu vel með fjallinu, snýrð baki í það og sérð kannski ekki grjóthrun eða snjóflóð koma,“ segir John Snorri. Hann segir mikið um grjóthrun núna á veturna, snjóflóð séu algengari á sumrin.

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að aðeins helmingur leiðangursins sé búinn þegar komið er á toppinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert