Bjórinn Loftur sem framleiddur er til styrktar minningarsjóðs Lofts Gunnarssonar hefur verið tekinn úr sölu hjá Vínbúðunum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur setti bjórinn í sölubann á grundvelli 7. greinar tóbaksvarnarlaga þar sem á umbúðum bjórsins er mynd af Lofti að reykja sígarettu.
Í 7. grein tóbaksvarnarlaga segir: „Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi.“
Framleiðendur bjórsins hafa sagt að þeir hyggist laga umbúðirnar með að líma yfir sígarettuna. Sigrún Ósk Sigurðardóttir varaforstjóri ÁTVR segir í samtali við mbl.is að geri framleiðendur úrbætur á umbúðum verði framhaldið líklega samtal á milli ÁTVR, Heilbrigðiseftirlitsins og framleiðenda.
Loftur Gunnarsson var heimilislaus maður sem lést árið 2012 þá aðeins 32 ára úr blæðandi magasári. Aðstandendur Lofts hafa bent á að það sé kvilli sem enginn á að þurfa að látast úr og er slíkt mjög óalgengt. Loftur hafi ekki fengið viðunandi heilbrigðisþjónustu vegna stöðu sinnar.
Minningarsjóðurinn sem stofnaður var í kjölfar andláts Lofts er ætlað að bæta hag heimilislausra í Reykjavík. Sjóðurinn styrkti Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarúrræði, myndalega í ár til kaupa á nýjum bíl. Einnig hefur sjóðurinn styrkt gistiskýli og rúm og fleira.