Sölustöðvun sett á Loft

Bjórinn Loftur lager. Umbúðirnar sýna Loft Gunnarsson heitinn reykja sígarettu.
Bjórinn Loftur lager. Umbúðirnar sýna Loft Gunnarsson heitinn reykja sígarettu. Samsett mynd

Bjórinn Loftur sem framleiddur er til styrktar minningarsjóðs Lofts Gunnarssonar hefur verið tekinn úr sölu hjá Vínbúðunum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur setti bjórinn í sölubann á grundvelli 7. greinar tóbaksvarnarlaga þar sem á umbúðum bjórsins er mynd af Lofti að reykja sígarettu.

Í 7. grein  tóbaksvarnarlaga segir: „Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi.“

Framleiðendur bjórsins hafa sagt að þeir hyggist laga umbúðirnar með að líma yfir sígarettuna.  Sigrún Ósk Sigurðardóttir varaforstjóri ÁTVR segir í samtali við mbl.is að geri framleiðendur úrbætur á umbúðum verði framhaldið líklega samtal á milli ÁTVR, Heilbrigðiseftirlitsins og framleiðenda. 

Lést úr blæðandi magasári 

Loftur Gunnarsson var heimilislaus maður sem lést árið 2012 þá aðeins 32 ára úr blæðandi magasári. Aðstandendur Lofts hafa bent á að það sé kvilli sem enginn á að þurfa að látast úr og er slíkt mjög óalgengt. Loftur hafi ekki fengið viðunandi heilbrigðisþjónustu vegna stöðu sinnar.

Minningarsjóðurinn sem stofnaður var í kjölfar andláts Lofts er ætlað að bæta hag heimilislausra í Reykjavík. Sjóðurinn styrkti Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarúrræði, myndalega í ár til kaupa á nýjum bíl. Einnig hefur sjóðurinn styrkt gistiskýli og rúm og fleira. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert