Staðfesta dóm fyrir nektarmynd

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur staðfest þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manni, sem sakfelldur var fyr­ir að hafa tekið ljós­mynd af fyrr­ver­andi sam­býl­is­konu sinni sof­andi ásamt öðrum karl­manni og dreift henni til þriggja annarra ein­stak­linga á Face­book.

Í dómi réttarins kemur fram að maðurinn tók ljós­mynd á síma sinn af kon­unni hálfnak­inni og karl­mann­in­um nökt­um þar sem þau lágu sof­andi í rúmi. Sendi hann mynd­ina í kjöl­farið á þrjá aðra ein­stak­linga.

Í niðurstöðu Landsréttar er meðal annars rakið að háttsemi mannsins hafi falið í sér lostugt athæfi samkvæmt 209. grein almennra hegningarlaga, og hefði verið til þess fallin að særa blygðunarsemi A. Þá þótti sýnt að sú hefði orðið raunin.

Viðkvæmar aðstæður

Fyrir liggur að maðurinn kom að morgni til í íbúð þar sem hann og konan höfðu deilt heimili, en hún hefði áður komið því á framfæri við hann að hún vildi binda enda á samband þeirra. 

„Í íbúðinni kom ákærði að brotaþola við viðkvæmar aðstæður þar sem hún var með öðrum karlmanni og tók af þeim ljósmyndina sem um ræðir. Á myndinni sést brotaþoli þar sem hún liggur í rúmi, hálfnakin með sæng um sig miðja en karlmaðurinn liggur nakinn við hlið hennar og eru þau bæði sofandi,“ segir í dómi réttarins.

Í kjölfarið hafi maðurinn sent þremur félögum sínum myndina með yfirskriftinni: „Kem heim að [konunni] svona í morgun.“

Dráttur á málinu

Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að dráttur hefði orðið á málinu, sem manninum yrði ekki kennt um. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Landsréttur hækkar þá miskabótagreiðslu mannsins til konunnar um hundrað þúsund krónur, þ.e. úr 300 þúsund krónum í 400 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert