Mikill meirihluti starfsfólks leikskóla Hafnarfjarðar hefur undirritað mótmæli gegn ákvörðun bæjarins um að hafa leikskólana opna 12 mánuði ársins. Hingað til hafa þeir verið lokaðir í fjórar vikur yfir sumartímann.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir að mikil óánægja sé með ákvörðunina. Þá hugsi margir starfsmenn sér nú til hreyfings. Í nýlegri grein í bæjarblaðinu Hafnfirðingi sögðu tveir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta í bæjarstjórn, að ákvörðun þessari hafi verið „þröngvað fram af fullkomnu skilningsleysi á grundvallarstarfi leikskólans sem er að mennta og efla þroska barnanna okkar“.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að fyrirkomulagið hafi gefist vel í nágrannasveitarfélögum. Þá segir Rósa að unnið sé að útfærslu þessa nýja fyrirkomulags. Rósa kveðst hafa skilning á því að fólk hafi uppi efasemdir um ágæti þessara hugmynda, slíkt sé eðlilegt og algengt þegar gera eigi breytingar.
„Þetta er þó það sem hefur verið kallað eftir í gegnum árin. Það hefur gengið mjög vel í Garðabæ og nú hefur Reykjavík tekið þetta upp sömuleiðis. Það er til mikils að vinna að prófa þetta,“ segir Rósa í umfjöllun um þetta deilumál í Morgublaðinu í dag.