Svartfuglinn sestur upp

Svartfuglinn settist upp í Vestmananeyjum í gær.
Svartfuglinn settist upp í Vestmananeyjum í gær. Morgunblaðið/Ómar

„Svartfuglinn var sestur upp í dag, 29. janúar,“ sagði Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari og fuglaáhugamaður í Vestmannaeyjum. Það er sami dagur og hann settist upp í fyrra. Þá hafði svartfugl aldrei sest þar upp jafn snemma ársins. 

Sigurgeir sá svartfugla sitja á tveimur bælum syðst í Ystakletti, á bergveggnum sem snýr að nýja hrauninu, rétt austan við Klettshelli sem margir þekkja og er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. 

Sigurgeir hefur fylgst með og skráð fyrstu komur svartfugla í um 70 ár Faðir hans, Jónas Sigurðsson í Skuld, skráði einnig komur svartfuglsins í marga áratugi og ná skráningar þeirra feðga því til komu svartfugla í björgin í Vestmannaeyjum í meira en eina öld.

Fyrsti komudagur svartfugla sem Jónas skráði var 4. febrúar. Sigurgeiri þótti það alltaf óeðlilega snemmt en samkvæmt hans athugunum hafði svartfuglinn aldrei komið fyrr en 7. febrúar þar til í fyrra. Nú kom hann aftur sama dag.

„Ef allt var eðlilegt með sjólag, vind og loðnuveiðar hér áður fyrr þá var loðnan komin hér inn af Elliðaey þetta þremur til tíu dögum eftir að svartfuglinn settist upp,“ sagði Sigurgeir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert