Tækniskólinn vill byggja við Hafnarfjarðarhöfn

Tækniskólinn starfar í dag á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu
Tækniskólinn starfar í dag á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu Mynd/mbl.is

Bæjarráð Hafnafjarðarbæjar staðfesti á fundi sínum í gær, 28. janúar, vilja til að ganga til viðræðna við byggingarnefnd Tækniskóla Íslands sem miði að samkomulagi um lóð undir nýbyggingu skólans á suðurhöfn Hafnarfjarðar.

Til stendur að byggja nýtt húsnæði sem hýsa á alla starfsemi Tækniskólans á einum stað. Tækniskólinn er í dag starfræktur í níu húsum á sex stöðum í Reykjavík og í Hafnarfirði. Þar starfa rúmlega 270 starfsmenn og yfir 3 þúsund nemendur skráðir í nám veturinn 2020-2021.

Nýbyggingu og nútímavæðingu á húsnæði skólans er ætlað að gera skólann meira aðlaðandi fyrir nemendur sem standa frammi fyrir vali á námi í framhaldsskóla. Þetta kemur fram í bréfi byggingarnefndar Tækniskólans til Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar.

Haustið 2018 var sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt að val fyrir staðsetningu fyrir framtíðaruppbyggingu nýs húsnæðis skólans væri að hefjast. Í kjölfarið hófust viðræður milli byggingarnefndar og bæjarstjóra. Viðræðurnar eru nú að skila því að byggingarnefndin óskar eftir formlegri staðfestingu á vilja Hafnarfjarðarbæjar til að ná samkomulagi um lóð og aðkomu að verkefninu. Sá vilji hefur nú verið staðfestur af bæjarráði Hafnarfjarðar og bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu.

Gríðarleg lyftistöng fyrir Hafnarfjörð

„Það er afar ánægjulegt að stjórnin velji Hafnarfjörð fyrir nýbyggingu Tækniskólans þar sem öflugt starfs- og iðnnám verður í boði. Áformin eru mjög spennandi og yrðu gríðarleg lyftistöng fyrir bæjarfélagið að fá þennan öfluga skóla í miðbæinn,“ segir Rósa í samtali við mbl.is.

„Um er að ræða stórar lóðir á hafnarsvæðinu en miklar skipulagsbreytingar hafa verið í undirbúningi á svæðinu, þar sem fjölbreytt þjónusta, atvinna og íbúðir munu rísa. Nú hefjast formlegar samningaviðræður, meðal annars um lóðamál á svæðinu. Staðsetningin er frábær við fallegu höfnina í miðbænum, almenningssamgöngur liggja beint við og bílnotendur úr öðrum sveitarfélögum munu aka á móti þunga umferðarinnar sem jafnan myndast á álagstímum á höfuðborgarsvæðinu,“ bætir hún við.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert