Undirbúa opnun skíðasvæðisins

Skíðasvæðið í Skarðsdal í gær. Búið er að aflétta hættustigi …
Skíðasvæðið í Skarðsdal í gær. Búið er að aflétta hættustigi vegna snjóflóðahættu á svæðinu, en Egill segir þó að meðan sé verið að vinna vilji þeir hafa sem minnsta umferð við skíðasvæðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreinsunarstarf á skíðasvæðinu í Skarðsdal við Siglufjörð var í fullum gangi þegar ljósmyndara og blaðamann Morgunblaðsins bar að garði í gær. Snjóflóð féll á skíðasvæðið í síðustu viku og hreif með sér aðstöðu skíðasvæðisins, bæði miðasölu og skíðaleigu, sem og einn troðara, og gjöreyðilagði.

Að sögn Egils Rögnvaldssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins, er áætlað að hreinsa til á svæðinu og koma húsa- og gámarústum á brott áður en reistir verða gámar svo koma megi starfsemi skíðasvæðisins aftur af stað.

Búið er að aflétta hættustigi vegna snjóflóðahættu á svæðinu, en Egill segir þó að meðan sé verið að vinna vilji þeir hafa sem minnsta umferð við skíðasvæðið. Lögreglan fylgdist vel með og elti bifreið blaðamanns og ljósmyndara upp á svæðið til að kanna hvort ekki væri allt með felldu.

„Það er búið að vera að taka þetta allt út hérna í gær og í dag og þetta er orðið stöðugt. Það er engin snjóflóðahætta hérna núna en við viljum hafa sem minnsta umferð hérna,“ segir Egill. Mildi þykir að skíðalyftur svæðisins hafi sloppið við flóðið, en flóðið fór nánast alveg að neðstu lyftunni sem flytur skíðaiðkendur upp á svæðið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert